Minna en 200 krónur á tímann
Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og Sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis segir í samtali við Víkurfréttir að verksamningur sem aukaleikarar í kvikmyndinni Flags of our fathers hafa undirritað samrýmist ekki neinum venjulegum kjarasamningum á hinum venjulega vinnumarkaði. „Þegar búið er að draga frá þennan kostnað sem viðkomandi verktaki verður fyrir og þeir reikningar sem koma eftir á eru dregnir frá þá eru launin afskaplega lítil þegar uppi er staðið. Fyrir einhverja vinnu sem tekur yfir 12 tíma þá sýnist mér launin geta verið komin niður undir 200 krónur á tímann.“
Kristján hvetur alla þá aðila sem hafa skrifað undir samninginn og vilja aðstoð að hafa samband við Verkalýðs- og Sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og að hann muni liðsinna þeim. Hann segir ekki skipta hvort fólk sé með félagsaðild eða ekki.
Hann furðar sig einnig á þeirri ábyrgð sem leikendur í myndinni eru skyldaðir til að axla og bendir á að það væri nú frekar ótrúlegt ef starfsmenn í innritun Flugleiða bæru ábyrgð á flugvélum fyrirtækisins.
Það kom fram hjá forsvarsmönnum Eskimo Group að fyrir sama starf er greitt um þrjú þúsund krónur í Bandaríkjunum en Kristján segir það ekki breyta neinu máli. „Ef það er hægt að fá aukaleikara fyrir þrjú þúsund í Bandaríkjunum þá hlýtur að vera hægt að fá aukaleikara fyrir tvö þúsund í Mexíkó og eflaust fimm hundruð krónur í Sómalíu.“
„En við erum tilbúin til þess að aðstoða fólk, eina það sem það þarf að gera er að hafa samband,“ sagði Kristján.