Minna á að Suðurnesjabær fer með skipulagsvald á lóð Norðuráls í Helguvík
Bæjarráð Suðurnesjabæjar segist fagna öllum hugmyndum og áformum um atvinnustarfsemi á því landi í Suðurnesjabæ sem Norðurál hefur haft á leigu og byggt mannvirki, eftir að Norðurál hefur lýst því yfir að fyrirtækið muni ekki hefja álbræðslu á svæðinu. Í afgreiðslu bæjarráðs frá því síðdegis er minnt á að Suðurnesjabær fari með skipulagsvald á lóðinni, sem sé innan bæjarmarka Suðurnesjabæjar.
Þá segir að við þessa ákvörðun Norðuráls þarf að leysa úr ýmsum málum til þess að byggja megi upp aðra atvinnustarfsemi á landinu og er margt af þeirri vinnu lögfræðilegs eðlis.
„Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir Suðurnesjabæ. Umrætt land og lóð Norðuráls er allt innan sveitarfélagsmarka Suðurnesjabæjar og fer Suðurnesjabær með skipulagsvald á svæðinu. Hvort sem Samherji fiskeldi, eða aðrir byggja upp atvinnustarfsemi á lóðinni liggur fyrir að vinna þarf ákveðna skipulagsvinnu, bæði aðalskipulag vegna markaðs þynningarsvæðis vegna álbræðslu og að deiliskipuleggja lóðina. Bæjarráð telur eðlilegast að landeigandinn Kadeco í samstarfi við Suðurnesjabæ annist þessa skipulagsvinnu,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs.
Þá segir að bæjarráð fagni hugmyndum Samherja fiskeldis um rekstur laxeldis á viðkomandi lóð og lýsir vilja til samstarfs við fyrirtækið við að komast að niðurstöðu um hvort af starfseminni verður.