Milljarður rís 2018
Á morgun, þann 16. mars verður boðið upp á dansbyltingu gegn kynbundnu ofbeldi í Hljómahöllinni í boði UN Women á Íslandi.
Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim. Með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka og yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi.
Í krafti #MeToo byltingarinnar hafa konur úr ólíkum geirum stigið fram og lýst því kynbundna ofbeldi og kynferðislegu áreitni sem þær hafa þurft að þola. Byltingin er hafin og ofbeldi í garð kvenna verður ekki lengur liðið.
Í sjötta sinn sameinast fólk frá yfir 200 löndum og dansa fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og sýna þeim samstöðu. Í fyrra komu saman um fjögur þúsund manns á öllum aldri um allt land í tilefni af Milljarður rís. Dansað var af krafti um allt land, m.a. í Reykjavík, Akureyri, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupstað, Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum, Hvammstanga og Borgarnesi. Samtakamátturinn var allsráðandi.
Konur um allan heim þurfa að þola óþolandi ofbeldi. Einn berskjaldaðasti hópur kvenna fyrir ofbeldi í dag eru Róhingjakonur sem flúið hafa Mjanmar til Bangladess sem flýja ofsóknir, hópnauðganir og linnulaust ofbeldi undanfarinna áratuga.
Í ljósi þess grimma veruleika sem Róhingjakonur á flótta búa við í Bangladess um þessar mundir hefur UN Women Íslandi efnt til neyðarsöfnunar. Af gefnu tilefni hvetur UN Women á Íslandi alla til að senda smsið KONUR í 1900 (1900 kr.) og lýsa upp myrkur Róhingjakvenna í Bangladess sem þurft að þola ofsóknir og gróft ofbeldi.
Ekki missa af stærstu dansveislu heims – mætum og gefum ofbeldi fingurinn!
Myllumerkið er #milljardurris #fokkofbeldi