Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miklir möguleikar í þjónustu við strandveiðimenn á Suðurnesjum
Fimmtudagur 13. ágúst 2009 kl. 10:02

Miklir möguleikar í þjónustu við strandveiðimenn á Suðurnesjum

Miklir möguleikar eru í ferðaþjónustu á Suðurnesjum í tengslum við strandveiðar stangveiðimanna. Í dag er talið að um 10 milljónir manna í Evrópu stundi strandveiðar, sem fara fram annað hvort af bryggjum eða með strandlengjunni. Undanfarna mánuði hefur verið unnin forkönnun og verkefnaáætlun vegna strandveiða á Suðurnesjum.

Verkefnið hefur verið unnið af Sveitarfélaginu Garði og Þorsteini Geirssyni, ráðgjafa. Ætlunin er að kynna verkefnið fyrir hagsmunaaðilum á Suðurnesjum á formlegum fundi í dag, fimmtudag, á Flösinni á Garðskaga.  Markmið fundarins er að vekja áhuga hagsmunaaðila á verkefninu og kanna áhuga þeirra á þátttöku. Fundurinn hefst kl. 11:30.

Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði, sagðist í samtali við Víkurfréttir binda miklar vonir við þessa nýjung í ferðaþjónustu. Útflutningsráð hefur sýnt málinu áhuga, auk þess sem stórir aðilar í ferðaþjónustu vilja hefja kynningu á þessum möguleikum á Íslandi. Hagsmunaaðilum hefur verið boðin þátttaka á fundinum í dag og í framhaldinu verður þeim boðin þátttaka í verkefninu.

Ástæður þess að Garðmenn séu að skoða þessa möguleika séu m.a. sú staðreynd að við Garðinn eru góðir veiðistaðir og mikil von til þess að fá stóran fisk. Suðurnes í heild sinni hafi upp á að bjóða allt það besta sem Ísland hefur að bjóða og t.a.m. um 300 km langa strandlengju þar sem víða séu góðir veiðistaðir.

Helstu niðurstöður þeirrar forkönnunar sem fram hefur farið eru þær að í norðanverðri Evrópu eru áætlaðar um 10 milljónir strandveiðimanna. Hins vegar er lítil sem engin þjónusta við strandveiðimenn á Íslandi en hins vegar hefur Ísland sérstöðu sem gæti freistað strandveiðimanna. Þar er verið að tala um góða veiði, fjölbreytta náttúru, strandlengjuna og nálægð við alþjóðlega markaði. Strandlengja Íslands er vannýtt auðlind en mestur hluti tekna af strandveiðimönnum skapast vegna þjónustu. Strandveiðimenn ferðast mikið saman í hópum og veiða á ströndum NorðurEvrópu. Þannig hefur það verið skilgreint að markhópurinn „strandveiðimenn“ er mun stærri en lax og silungsveiðimenn. Talið er að lax og silungsveiði hér á landi afli þjóðarbúinu á bilinu 79 milljarða króna á ári. Þar af er endurgjald til veiðiréttareigenda eingöngu um 15%. Opinberar tölur frá Bretlandi benda til þess að strandveiði þar í landi skapi meiri tekjur, beinar og óbeinar, en sem nemur tekjum af veiðum skipa og báta þar við land.'

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024