Miklar vonir bundnar við samstarf við Umferðarstofu
Sveitarfélög á Suðurnesjum skrifuðu í morgun undir samstarfssamning við Umferðarstofu um gerð umferðaröryggisáætlunar sem miðar að auknu umferðaröryggi í bæjarfélögunum og virkjar sem flesta hagsmunaaðila til þátttöku.
Markmið er að auka öryggi allra bæjarbúa og annarra sem leið eiga um bæinn og fækka óhöppum og slysum í umferðinni.
Verkefnið er talið mikilvægt skref til þess að langtímamarkmiðum í umferðaröryggismálum verði náð en gerð umferðaröryggisáætlunar nýtist sveitarfélögunum í samræmingu vinnubragða.
Reykjanesbær skrifaði undir samkomulag um gerð umferðaröryggisáætlunar í apríl sl. og nú fylgja í kjölfarið önnur sveitarfélög á Suðurnesjum en þau eru: Sveitarfélagið Garður, Sandgerðisbær, Vogar og Grindavík.
Sérstök áhersla verður lögð á aðgerðir í þágu óvarinna vegfarenda þ.e. gangandi fólks og hjólreiðamanna. Umhverfi skóla, leikskóla, félagsmiðstöðva og íþróttamannvirkja verður jafnframt metið sérstaklega með tilliti til umferðarörggis.
Sveitarfélögin munu gera árlega skýrslu um framgang umferðaröryggisáætlunarinnar og þann mælanlega árangur sem af henni er hægt að sjá. Þar verða jafnframt aðgerðir ársins tilgreindar.
Það von sveitarstjórnarmanna að þetta sameiginlega átak verði til þess að gera forvarnir og úrbætur í umfer ðaröryggismálum enn markvissari.
Sigurður Helgason verkefnastjóri Umferðarstofu:
,,Sveitarfélögin á Suðurnesjum taka ótvírætt forystu í markvissum vinnubrögðum í umferðaröryggismálum með undirritun þessara fjögurra samninga."
Myndin: Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri Grindavíkur, Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Voga, Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs, Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri í Sandgerði og Birgir Hákonarson framkvæmdastjóri umferðaröryggissviðs Umferðarstofu.