Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

  • Miklar skemmdir af hita og reyk
  • Miklar skemmdir af hita og reyk
    Slökkviliðsmenn sem reykköfuðu inn í húsið þurftu að vinna í miklum hita.
Föstudagur 31. október 2014 kl. 17:01

Miklar skemmdir af hita og reyk

- Eldur í stóru íbúðarhúsi í Garðinum.

Eldur kom upp í herbergi á efstu hæð í stóru íbúðarhúsi við Garðbraut í Garði í dag. Allt tiltækt slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út ásamt lögreglu.

Þegar slökkvilið kom á staðinn voru íbúar hússins komnir út. Fimm einstaklingar, bæði fullorðnir og börn. Þykkan gulbrúnan reyk lagði frá húsinu og að sögn slökkviliðsmanns sem Víkurfréttir ræddu við á vettvangi var mikill hiti á hæðinni þar sem eldurinn kom upp.

Slökkviliðsmenn voru fljótir að ráða niðurlögum eldsins og þá var farið í að reykræsta húsið. Miklar skemmdir eru á innanstokksmunum af hita og reyk og ljóst að ekki verður búið á tveimur efstu hæðunum á næstunni.

Grunsemdir eru um að eldurinn hafi komið upp í lampa í einu herbergi á hæðinni. Íbúar í húsinu lýstu aðstæðum þannig að þeir hafi heyrt hljóð eins og vatn væri að renna í herberginu og þegar hurð hafi verið opnuð hafi eldurinn magnast upp.

Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á vettvangi brunans nú áðan.



Þykkan gulbrúnan reyk lagði út um útidyr hússins.



Slökkviliðsmenn og lögregla ráða ráðum sínum á vettvangi brunans.



Slökkviliðsmaður virðir fyrir sér aðstæður. Eldurinn kom upp í herbergi á efstu hæð þar sem sjá má vatnstaum niður með veggnum eftir slökkvistarfið.



Reykkafarar slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja framan við Garðbraut 84, þar sem eldsvoði varð í dag.



Slökkviliðsmenn skipuleggja leit í húsinu en reykkafarar fóru um allt húsið til að tryggja að enginn hafi lokast þar inni, enda var um tíma svo þéttur reykur í húsinu að reykkarar sáu ekki handa skil.



Frá brunavettvangi í dag. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

 

Public deli
Public deli