Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miklar leysingar í farvatninu
Föstudagur 27. janúar 2012 kl. 13:27

Miklar leysingar í farvatninu

Skammt er stórra högga á milli í veðrinu hér á landi þessa dagana. Undanfarna daga hefur ófærð, hríðarbylur, fannfergi og snjóflóðahætta verið helsta umfjöllunarefnið. Í dag fer aftur á móti að hlána og gerir það svo af alvöru seinnipartinn á morgun með asahláku, sér í lagi á suður- og vesturlandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Asahláka verður ekki nema þegar snjór eða klaki er á jörðu, vindur um 15-20 m/sek, hiti um eða yfir 5°C og úrkoma mikil á frekar skömmum tíma. Nú er mikill snjór og stór hluti hans nýlegur og auðleystur. Í dag blotnar í snjónum og hengjur og grýlukerti fara af stað á þökum. Um leið og bloti kemur í snjóinn er hætta á að leki inn í hús og þá sér í lagi út frá snjó á svölum og þökum. Moka þarf því sem allra fyrst snjó af þeim stöðum svo framarlega sem það sé ekki á kostnað öryggis einstaklinga.

Einari Sveinbjörnsson veðurfræðingur Veðurvaktarinnar segir að framan af morgundeginum verði úrkomulítið. Dálítil rigning um hádegi, en rigningin aukist verulega suðvestan- og vestanlands undir kvöldið. „Frá þeim tíma og fram á sunnudag má reikna með eindreginni slagveðursrigningu. Áætluð sólarhringsúrkoma er um 20-25 mm á höfuðborgarsvæðinu frá hádegi á laugardag. 40-60 mm úrkoma verður hins vegar á Hengils- og Bláfjallasvæðinu ofan byggðar. Samhliða verður 5-7°C hiti og SSA-átt, 15-18 m/s frá því síðdegis á morgun og þar til kuldaskilin verða gengin yfir um hádegi á sunnudag. Þá snýst vindur til SV-áttar og kólnar skarpt.“

Þetta er þriðja helgi ársins sem asahláka verður. Töluvert var um vatnstjón í fyrri tvö skiptin. Þá bárust VÍS vel yfir 200 símtöl en að meðaltali berast félaginu 20-30 símtöl yfir eina helgi. Tjónin eru misalvarleg. Versta dæmið fyrir hálfum mánuði var í kjallaraíbúð þar sem vatn fossaði inn sem stórfljót þannig að þegar íbúarnir vöknuðu og stigu fram úr náði vatnið þeim í miðja kálfa.

Forvarnir eru gríðarlega mikilvægar í aðstæðum sem þessum. Þær duga þó ekki alltaf þegar vatnselgurinn og aðstæðurnar eru erfiðari en fólk ræður við.

· Mikilvægast er að hreinsa frá niðurföllum og tryggja að þau séu ekki stífluð.

· Hreinsa snjó af svölum.

· Hreinsa þakrennur og niðurföll og tryggja að þau geti tekið á móti vatninu, sér í lagi á flötum þökum.

· Búa til rásir í snjóinn til að vatn eigi greiða leið frá húsum.