Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miklar endurbætur á Útskálakirkju
Fimmtudagur 16. október 2003 kl. 14:07

Miklar endurbætur á Útskálakirkju

Í ár eru liðin 140 ár síðan Útskálakirkja var vígð og í tilefni af því hefur sóknarnefnd Útskálakirkju ákveðið að fara í allsherjar endurbætur á kirkjunni sem hafði þjónað Garðmönnum í 45 ár þegar stofnað var til sveitarfélagsins Gerðahrepps í prestsetrinu að Útskálum. Kirkjan þjónar ennþá vel sínu hlutverki og rúmar stórar athafnir, enda menn stórhuga á sínum tíma þegar kirkjan var reist.
Það má hins vegar búast við því að 140 ára kirkjubygging láti á sjá og fyrsta verkefnið verður að rétta við kirkjuturninn, en glöggir menn sjá að hann hallar orðið töluvert aftur eða horfir til himins, eins og einhverjum varð á orði. Innandyra verður einnig byrjað á því að rétta söngloftið.
Jón Hjálmarsson, formaður sóknarnefndar Útskálakirkju, segir að auk þessa verði skipt um allt járn á þaki, turni og forkirkjunni allri. Allt timburverk á turni verður endurnýjað, ný útihurð sett í kirkjuna og nýir póstar í alla glugga Útskálakirkju.
Hlaðinn grunnur er undir Útskálakirkju. Þessi grunnur var múrhúðaður á síðustu öld til að koma í veg fyrir raka. Múrhúðin verður tekin af og skoðað hvort ekki sé hægt að skipta um fúgur, enda þéttiefni í dag mun betri en áður þekktust. Vilji er til að láta hlaðinn grunninn njóta sín.
Í framhaldinu verður ráðist í miklar endurbætur innandyra. Teppi verða tekin af gólfum. Gólfborðin hafa verið skoðuð. Þau virðast vera í mjög góðu ástandi og verða að öllum líkindum látin njóta sín. Eingöngu verður þá dregill eftir gangi kirkjunnar. Þá verður klæðning á veggjum í kirkjunni löguð, en hún er mjög gisin á köflum. Kirkjubekkir verða málaðir að nýju og kirkjan öll máluð.
Að sögn Jóns er gróf kostnaðaráætlun upp á um 16 milljónir króna. Sóknarnefndin stendur straum af kostnaði, en einnig verða sóttir styrkir til húsafriðunarsjóðs og jöfnunarsjóðs sókna. Þá verður sett í gang almenn söfnun í Garðinum og á bás sóknarnefndar Útskálakirkju verður safnað styrktaraðilum að verkefninu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024