Miklar byggingaframkvæmdir í Sandgerði
Töluverð uppbygging er í Sandgerði um þessar mundir, en fyrir stuttu var fyrsta skóflustunga tekin að nýjum miðbæ við Miðnestorg í Sandgerði. Framkvæmdin er á vegum Sandgerðisbæjar, Miðnestorgs ehf og Búmanna, en aðalverktaki er Húsagerðin ehf. Um er að ræð 3ja hæða byggingu, alls um 3.200 fermetra. Í húsinu verður bókasafn, bæjarskrifstofur, þjónustustarfsemi og miðjukjarni með þjónustueldhúsi og íbúðum.
Gengið verður frá lóð með malbikuðum bílastæðum. Á lóðinni er gert ráð fyrir fjölskyldugarði og tjörn. Fyrirhugað er að taka húsið í notkun eftir u.þ.b. eitt ár.
Undanfarið hafa lagnir og gangstéttir verið endurnýjaðar í nokkrum götum í Sandgerði og hefur fyrirtækið Nesprýði séð um þá vinnu og er áætlað að þeim framkvæmdum ljúki á þessu ári.
Tvö ný hverfi eru að byggjast upp við Bogabraut og Lækjamót, en samanlagt er gert ráð fyrir 77 byggingalóðum í báðum hverfunum. Að Bogabraut hefur 10 lóðum verið úthlutað fyrir einbýlishús og hefur verið flutt inn í tvö þeirra, tvö eru fokheld og framkvæmdir eru hafnar á nokkrum lóðum. Í Lækjamótahverfinu hefur 14 byggingalóðum verið úthlutað til verktaka og einstaklinga fyrir einbýlishús, parhús og raðhús, en í hverfinu er eitt parhús með tveimur íbúðum fokhelt.
Fyrir nokkrum árum voru fyrstu húsin reist í Mið- og Norðurtúni í Sandgerði og í dag hefur öllum lóðum í þessu hverfi verið úthlutað. Tvö einbýlishús eru nú í byggingu í hverfinu.
Að Suðurgötu 36 er nýbúið að reisa fjögurra íbúða hús og eru íbúðirnar til sölu.
Nálægt golfvellinum í Sandgerði er að rísa sumarhúsabyggð sem kallast Nátthagar. Þar hefur 19 lóðum verið úthlutað undir sumarhús. Fimm hús eru fullgerð og tvö eru fokheld, auk þess sem framkvæmdir standa yfir á nokkrum lóðanna.
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands hefur nokkur fjölgun íbúa orðið í Sandgerði frá árinu 1993 en þá voru 1.317 íbúar skráðir í Sandgerði. Árið 1998 voru íbúarnir 1.331 og árið 2003 voru skráðir íbúar samkvæmt Hagstofu Íslands 1.389. Jafngildir þetta um 5% fjölgun íbúa í Sandgerði á 10 ára tímabili.
Reisir hús að Bogabraut
Halldór Ármannsson er að reisa einbýlishús að Bogabraut í Sandgerði, en Halldór er múrarameistari að mennt. Að sögn Halldórs líst honum vel á hverfið og segir að lóðir í Sandgerði séu töluvert ódýrari en í Reykjanesbæ. „Það er töluverður verðmunur á lóðum í þessum tveimur bæjarfélögum. Ég hef búið í Sandgerði sl. 5 ár og mér líkar vel hér,“ segir Halldór en húsið að Bogabraut er það þriðja sem hann reisir, en áður byggði hann tvö hús í Keflavík. Halldór segist sjá að það sé meira um það í Sandgerði að fólkið sé sjálft að vinna við byggingu húsa sinna. „Með því að vinna sjálfur er ódýrara að byggja, það segir sig í rauninni sjálft.“
Halldór er ánægður með skipulagið að Bogabraut. „Þetta er skemmtilegt framtíðarskipulag og hverfið verður mjög fallegt. Það er álfhóll hérna rétt við hverfið sem fær að sjálfsögðu að halda sér - það verður ekki hreift við honum,“ segir Halldór og hann telur að Sandgerðisbær muni sækja í sig veðrið á næstu árum hvað varðar íbúafjölgun. „Það er kannski ekki mikla atvinnu að fá hér í Sandgerði, en bæjarfélagið er vel staðsett hér á Suðurnesjum og þægilegt að komast til vinnu á Keflavíkurflugvelli til dæmis. Ef maður er farinn að tala um að sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið af Suðurnesjum þá skiptir það engu máli hvort maður búi í Sandgerði eða Reykjanesbæ.“
Bæjarstjórinn ánægður með uppbygginu í bæjarfélaginu
Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri Sandgerðisbæjar er ánægður með þá uppbyggingu sem á sér stað í Sandgerði og hann segir að það sé mikill áhugi fyrir lóðum í bæjarfélaginu. Ástæðuna segir Sigurður Valur helst vera þá að í Sandgerði séu stofngjöld húsnæðis með því lægsta sem gerist á landinu. „Hér er líka einsetinn skóli með fámennum bekkjardeildum. Við veitum einnig mjög góða þjónustu á leikskólum og leikskólagjöld hér í Sandgerði eru þau lægstu á Suðurnesjum. Þetta spilar allt saman,“ segir Sigurður Valur.
Lengi hefur verið litið á Suðurnesin sem eitt atvinnusvæði og segir Sigurður að það séu íbúar í Sandgerði sem keyri Reykjanesbrautina til vinnu á hverjum morgni. „Atvinnuástandið hér í Sandgerði er að snúast til betri vegar, þó það sé langt í land.“
Hvaða augum lítur þú á uppbyggingu miðbæjarins?
Ég held að þetta sé eitt helsta framfaraspor bæjarkjarnans, ekki bara í uppbyggingalegum skilningi, heldur einnig umhverfislega því það verður að leggja mun meiri áherslu á umhverfisþátt þessara bæjarkjarna heldur en gert hefur verið.
Skiptir þessi bygging sköpum fyrir bæjarfélagið?
Ég held að það sé ekki hægt að orða það þannig. Við erum að reisa 3200 fermetra húsnæði. Í þessu húsnæði er gert ráð fyrri 300 fermetra aðstöðu fyrir bæjarskrifstofur. Margir hafa sagt að það sé verið að byggja ráðhús í Sandgerði, en á þessum tölum sést að það er ekki rétt. Í húsinu verður ýmis þjónusta sem á eftir að nýtast íbúum bæjarfélagsins vel.
Nú var minnihluti bæjarstjórnar á móti þessari framkvæmd. Skilurðu afstöðu þeirra?
Verður maður ekki að segja það. Menn verða náttúrulega að hafa sínar skoðanir og maður virði þær. Ég er ekki sammála skoðun minnihlutans. Menn verða að hafa skýra framtíðarsýn og líta á málin frá öllum hliðum.
Sumir hafa verið að velta því fyrir sér að með byggingu þessa húss séum við að koma í veg fyrir sameiningu sveitarfélaga hér á Suðurnesjum. ÉG segi hinsvegar að ég líti á málin frá hinni hliðinni. Ef að sveitarfélög hér verða sameinuð þá eiga íbúarnir að hafa miðju í þessum bæjarkjarna þar sem fólk hefur gaman af að koma og vera í fallegra umhverfi.
Hvernig sérðu Sandgerði fyrir þér eftir nokkur ár?
Sandgerðisbær á að geta orðið einn af fallegustu útgerðarstöðum landsins en það þarf þá að vera þokkaleg útgerð hér og það er á því sviði sem skóinn kreppir þessa dagana. Við munum áfram vinna að því að svo megi verða og vonandi munum við vera með fréttir af þeim málum innan tíðar.
Myndir: Efsta: Unnið við byggingu að Bogabraut.
Mið: Frá Miðtúni. Halldór Ármannsson reisir hús í Sandgerði.
Neðsta mynd: Tölvuteikning frá teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur af Miðnestorgi.