Fréttir

Miklar breytingar í útgerð á 20 árum
Gunnar Hámundarson GK með fullfermi af fiski til hafnar í Keflavík. Myndin er tekin 2007. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Laugardagur 24. nóvember 2018 kl. 14:52

Miklar breytingar í útgerð á 20 árum

Það er búið að vera mikið líf í Sandgerði núna þegar liðið hefur á nóvembermánuð. Mikil fjölgun á bátum sem gera þaðan út, því að nokkrir hafa bæst í hópinn þar sem gera út á línuveiðar. Má þar nefna bæði Daðey GK og Katrínu GK. Þegar þetta er skrifað hefur verið haugabræla síðan fyrir helgi og bátar ekkert komist á sjóinn.
 
Netabáturinn Erling KE er farinn á flakk því hann fór á Vestfirðina og lagði netin sín út frá Önundarfirði og landaði á Flateyri 33 tonnum í einni löndun, fór síðan annan túr og landaði í Bolungarvík.
 
Fyrst ég byrjaði á að tala um hversu mikið hefði verið um að vera í Sandgerði núna í nóvember þá er kannski rétt að fara í smá ferðalag aftur í tímann og sjá breytingarnar sem hafa orðið. Förum aftur til ársins 1998 eða tuttugu ár aftur í tímann og í nóvember. Maður rekur strax augun í miklar breytingar. Byrjum í Grindavík. Núna árið 2018  hefur verið landað í Grindavík 275 tonnum. Árið 1998 var landað í sama mánuði 5038 tonnum. Þar af var loðna 3777 tonn. Þetta er allrosalegur munur, uppá 1650%. Fjöldi landana er líka mun meiri. Landanir árið 2018 eru ekki nema um tuttugu en árið 1998 voru 182 landanir.
 
Ef við skoðum nokkra báta árið 1998 þá má nefna t.d. Þorstein Gíslason GK sem var með 40 tonn í sjö róðrum á línu.  Reynir GK 39 tn í æatta róðrum á línu. Háberg GK, sem var á loðnu, var með 1878 tonn í þremur veiðiferðum. Skarfur GK á línu 188 tonn í þremur. Kjói GK, sem var smábátur í eigu Stakkavíkur, var með 11,3 tonn í átta á línu. Þessi bátur heitir í dag Stakasteinn GK og er gerður út af Hirti Jóhannessyni, sem var áður skipstjóri á Njál RE. Alli Vill GK var með 11,2 tonn í fimm á línu.
 
Í Keflavík núna árið 2018 þá hefur verið landað þar um 962 tonnum og af því þá er síld 900 tonn þannig að eftir standa 62 tonn af bolfiski. Fyrir tuttugu árum síðan þá var landað í Keflavík og Njarðvík 1368 tonnum í 258 löndunum. 
 
Sem fyrr voru margir netabátar að landa árið 1998 og t.d. var Styrmir KE með 51 tn í tíu. Happasæll KE, sem í dag er Grímsnes GK, var með 86,5 tn í 21 róðri. Ágúst Guðmundsson GK með 56 tn í sextán róðrum. Gunnar Hámundarsson GK 31,5 tonn í átján. Þorsteinn GK sextán var með 46 tn í tólf og Skúmur GK 111 var með 47 tn í fimmtán. Þuríður Halldórsdóttir GK á trolli var með 221 tonn í fjórum. Eyvindur KE á dragnót með 29 tonn í tólf.
  
Sandgerði hefur um árabil verið stærsta löndunarhöfn landsins og það sést vel í nóvember 1998, því þá voru landanir 674 talsins og aflinn alls 3311 tonn og af því var loðnan 908 tonn svo að bolfiskur var því 2403 tonn. Þetta voru alls 83 bátar sem lönduðu afla í Sandgerði árið 1998 í nóvember og er það ansi mikill fjöldi.
 
Skoðum nokkra báta. Línuveiði bátanna var mjög góð og sérstaklega hjá smábátunum. Eins og t.d. Funi GK sem var með 27 tonn í fimmtán róðrum. Baddý GK 31 tn í fjórtán. Dímon KE 20 tn í níu róðrum. Staðarvík GK 20 tn í níu og heitir þessi bátur í dag Guðrún Petrína GK. Mummi GK 20 tn í tíu og voru Mummi GK og Staðarvík í eigu Stakkavíkur. Siggi Bjarna GK 42 tn í tólf. Þessi bátur er í dag Addi Afi GK frá Sandgerði. Skarfaklettur GK 38 tn í fimmtán. Togarinn Berglín GK var með 292 tn í fjórum. Ársæll Sigurðsson HF 34 tn í 22 á netum. Guðfinnur KE 50 tn í fimmtán á net. Jón Gunnlaugs GK 29 tn í fjórum á trolli. Stafnes KE 107 tn í tólf á net og Svanur KE 30 tn í sextán á net. Freyja GK 40 tn í níu á línu. Ósk KE 67 tn í átján á netum og heitir þessi bátur í dag Maron GK. Baldur KE 22 tonn í tólf róðrum á dragnót. Sigþór ÞH 116 tn í fjórtán á línu, og Siggi Bjarna GK 71 tonn í sextán á dragnót.
 
Eins og sést á þessu stutta yfirliti þá hefur mikið breyst í útgerð á Suðurnesjunum á aðeins tuttugu árum. Breyting sem því miður er ekki jákvæð.    
    
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024