Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikilvægt er að aðstoða atvinnuleitendur og leita leiða til þess að styrkja þá
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 18. janúar 2021 kl. 07:18

Mikilvægt er að aðstoða atvinnuleitendur og leita leiða til þess að styrkja þá

„Við hvetjum þá sem eru án atvinnu að nýta tímann í að afla sér þekkingar, hlúi að sjálfum sér og kynni sér alla þá möguleika sem standa þeim til boða,“ segir Nathalía Druzin Halldórsdóttir, ráðgjafi í atvinnumálum hjá VR.

„Á Suðurnesjum er fjöldi atvinnulausra félagsmanna hátt í 500 manns. Þetta er mjög stór hópur sem mikilvægt er að aðstoða eftir bestu getu og leita leiða til þess að styrkja þá til að endurkoma þeirra á vinnumarkað verði skjót og ánægjuleg. Ég vil hvetja Suðurnesjamenn til þess að hafa samband við okkur og fá ráðgjöf,“ segir Nathalía Druzin Halldórsdóttir, ráðgjafi í atvinnumálum hjá VR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Hvernig eruð þið að aðstoða félagsmenn VR í atvinnumálum?

„VR býður upp á nýja þjónustu við félagsmenn sína sem standa á krossgötum á sínum starfsferli.

Það er mikilvægt að nýta tímann og fá hagnýt ráð varðandi ráðningaferlið sem geta nýst strax. Vegna Covid-19-faraldursins höfum við veitt ráðgjöfina í gegnum fjar- og símafundi sem hefur gefið góða raun og auðveldað okkur að hitta félagsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Hér er tæpt á því helsta sem boðið er upp á:

1. Skoðum gögnin
Að vera með skýr, skilmerkileg og upplýsandi gögn getur oft gert gæfumuninn í starfsleit og er aðgöngumiði í atvinnuviðtal.

VR býður upp á ráðgjöf varðandi ferilskrárgerð, LinkedIn prófíl, kynningarbréf o.fl.

Við hvetjum þá félagsmenn sem vilja aðstoð með útlit, uppsetningu og innihald gagna til þess að senda tölvupóst á netfangið [email protected] og við förum yfir málin.

2. Stöðumat
Að skipta um starf eða starfsvettvang getur reynt á taugarnar, úthaldið og þolinmæðina.

VR býður félagsmönnum upp á ráðgjöf varðandi stöðu viðkomandi á vinnumarkaði og hvaða möguleikar eru í boði varðandi starfsleit sem og starfsmenntun.

Við hvetjum þá félagsmenn sem vilja ráðgjöf með starfsumsóknir og starfsleit til þess að senda tölvupóst á netfangið [email protected] og við förum yfir málin.

3. Æfingaviðtal
Að fara í atvinnuviðtal getur verið stressandi og margir upplifa sömu tilfinningu og að fara í próf.

VR býður félagsmönnum upp á æfingaviðtal þar sem settar eru upp aðstæður líkt og um raunverulegt atvinnuviðtal sé að ræða.

Í æfingaviðtalinu gefst félagmönnum tækifæri til þess að æfa sig og láta ljós sitt skína en fá jafnframt endurgjöf á viðtalið. Við hvetjum þá félagsmenn sem vilja komast í æfingaviðtal að senda tölvupóst á netfangið [email protected] og við bókum viðtal.“

– Nú hafa margir félagar í VR starfað hjá fyrirtækjum eða aðilum sem tengjast ferðaþjónustu og margir með erlent ríkisfang. Hvernig er staðan hjá þessu fólki?

„Það er þó nokkur fjöldi af erlendum félagsmönnum sem hefur nýtt sér þjónustu VR varðandi atvinnuleit og undirbúning og má segja að staða þeirra sé misjöfn, fer allt eftir fyrri reynslu og eins hversu lengi viðkomandi hefur búið og starfað hérlendis. Margir eru komnir vel á veg með að aðlagast samfélaginu hér, hafa náð tökum á tungumálinu og eru staðráðnir í því að setjast hér að og finna sér starf til frambúðar. Aðrir eru ekki að horfa til framtíðarbúsetu á landinu, hafa margir hverjir komið til landsins í tengslum við vaxandi ferðamannaiðnað og sinnt ýmsum störfum. Sá hópur er á ákveðnum krossgötum og ég finn að margir eru tvístígandi og uggandi um afkomu sína og íhuga jafnvel að flytja af landi brott. Við hvetjum alla til þess að bæta við sig þekkingu og nýta þau fjölmörgu námskeið sem standa til boða. Að læra tungumálið er mikilvægt, sér í lagi ef þú vilt setjast að í landinu til frambúðar.“ 

– Hafiði verið að beina atvinnulausu fólki á aðrar brautir, t.d. í nám eða námskeið?

„Við hvetjum alla okkar félagsmenn, hvort sem þeir eru í vinnu eða án atvinnu til þess að bæta við sig þekkingu og styrkja kunnáttu sína.

Það er mikilvægt að þeir sem eru án atvinnu reyni að nýta tímann í að afla sér þekkingar, hlúi að sjálfum sér og kynni sér alla þá möguleika sem standa atvinnuleitendum til boða. Það að læra nýja hluti og huga að eigin heilsu er alltaf mikilvægt, hvort sem fólk er í vinnu eður ei, en þegar einstaklingur er án atvinnu í einhvern tíma þýðir það að fleiri klukkustundir eru lausar í sólarhringnum og því mikilvægt að nýta þær til góðra verka. Það að halda dampi, sækja námskeið eða lengra nám og sinna líkamlegri og andlegri heilsurækt skilar sér margfalt til baka, bæði meðan á því stendur sem og þegar viðkomandi einstaklingur fer aftur út á vinnumarkaðinn. Meira sjálfstraust, meiri ánægja með eigin afrek og fleiri verkfæri til þess að vinna með er mjög dýrmætur ávinningur.

Það er mikið námsframboð, bæði hér á Íslandi sem og í gegnum erlenda aðila og hægt að komast yfir mikið efni, oft með ekki svo miklum tilkostnaði og stundum jafnvel ókeypis. Ekki má svo gleyma öllum fyrirlestrunum, fræðsluerindunum, hljóðvörpunum, bókunum o.s.frv. sem er aðgengilegt hverjum þeim sem sækist eftir því að viða að sér þekkingu.

Félagsmenn VR geta nýtt sér réttindi sín í starfsmennta- og varasjóði og ættu allir að kanna stöðu sína þar með því einfaldlega að fara inn á Mínar síður á vr.is  þar sem stöðu sjóðanna má sjá með mjög skýrum hætti. Ég hvet alla til þess að kynna sér sín réttindi. Eins hefur Vinnumálastofnun boðið upp á námsstyrk sem vert er að nýta sér.

Nú nýverið var samþykkt frumvarp sem gerir atvinnuleitendum kleift að stunda nám í eina önn meðan þeir eru án atvinnu. Þetta er gríðarlega mikilvægt skref og kemur sér mjög vel fyrir stóran hóp atvinnuleitenda.