Mikilvægt að taka stjórn á vettvangi
,,Þjálfunin skilaði sér vel, það var alveg greinilegt," sagði Davið Arthur Friðriksson þegar hann og Sigurður Halldórsson tóku á móti viðurkenningu í dag sem Grindvíkingar ársins sem heimasíða Grindavíkurbæjar stóð fyrir. Davíð og Sigurður björguðu lífi Grétars Einarssonar sem fékk hjartaáfall á knattspyrnumóti í íþróttahúsi Grindavíkur þann 30. desember sl. Heimasíðan leitaði til 15 einstaklinga í Grindavík til að velja Grindvíking ársins og fengu Davíð og Sigurður langflest atkvæði hjá álitsgjöfunum.
Það var Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri sem afhenti Davíð og Sigurði viðurkenninguna en vonandi verður val á Grindvíkingi ársins að árlegum viðburði. Tilgangurinn með kjörinu er fyrst og fremst að vekja athygli á því sem vel er gert í Grindavík.
Þeir sem voru á staðnum segja að Davíð og Sigurður, sem báðir eru slökkviliðsmenn, hafi brugðist hratt og vel við. Davíð sem er slökviliðsmaður á Keflavíkurflugvelli, lauk ströngu námskeiði í haust sem sjúkraflutningamaður. Hann segir að þar hafi verið lögð mikil áhersla á að taka stjórn á vettvangi í aðstæðum sem þessum og það hafi hann gert og allt ferlið gengið eins og í sögu. Davíð beitti hjartahnoði á Grétar og Sigurður blés og þannig tókst þeim að koma súrefni til heilans á meðan beðið var eftir hjartastuðtæki en slíkt er ekki til taks í íþróttahúsinu. Þeir sem fylgdust með aðgerðum á staðnum segja að fagleg vinnubrögð Davíðs og Sigurðar hafi skipt sköpum og þeir unnið saman sem einn maður.
Hlaupa þurfti yfir í sundlaugina til þess að ná í hjartastuðtæki og þegar það var komið var Grétari gefið stuð. Davíð segir að þar hafi Snorri Kristinsson, starfsmaður sundlaugarinnar, komið til aðstoðar og gert það mjög vel og hann hafi átt sinn þátt í því hversu vel tókst til.
Eftir að Grétar fékk hjartastuð fór hjartað í gang að nýju og hann komst smám saman til meðvitundar á ný. Var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann er búinn að fara í hjartaþræðingu og bíður eftir að komast í minniháttar hjartaaðgerð, en heilsast að öðru leiti vel.
Sigurður segir að þetta hafi allt farið eins vel og hugsast gat. Davíð segir að það hafi ekki verið fyrr en allt var um garð gengið að hann hafi í raun áttað sig á því hvað gerðist og hann hafi átt erfitt með að sofna næstu tvær nætur á eftir.
Mynd: Þorsteinn Gunnarsson ritstjóri www.grindavik.is, Sigurður Halldórsson, Davíð Arthur Friðriksson og Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri.