Mikilvægt að Suðurnesjalína 2 verði reist sem fyrst
Í kjölfar bilunar í flutningskerfi Landsnets sunnudagskvöldið 5. nóvember sl. ítrekar Bæjarstjórn Reykjanesbæjar bókun sem gerð var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2016 en þar var skorað á ráðherra að beita sér fyrir öryggi í raforkumálum á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá því í gærkvöldi.
„Mikilvægt er að Suðurnesjalína 2 verði reist sem fyrst. Flutningsgeta núverandi línu er fullnýtt og hamlar núverandi kerfi uppbyggingu á svæðinu. Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskagans við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni valdið straumleysi. Það er ekki ásættanlegt m.a. með tilliti til þess að eini alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur á Suðurnesjum.
Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem og getur valdið tjóni hjá notendum. Það er brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst,“ segir í bókuninni sem allir bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ undirrita.