Fréttir

Mikilvægt að slökkva á öllu gasi áður en fólk fer að sofa og setja gaskútinn út fyrir dyr
Fimmtudagur 8. febrúar 2024 kl. 21:45

Mikilvægt að slökkva á öllu gasi áður en fólk fer að sofa og setja gaskútinn út fyrir dyr

Köld nótt er fram undan hjá íbúum Suðurnesja, spáð er miklu frosti í nótt og því má búast við að kalt verði í húsum. Mörg eru búin að tryggja sér rafmagnshitara. Við minnum fólk á að nota þau raftæki sparlega, eftir þörfum og taki þar með tillit til annarra.

Sum hafa orðið sér út um gashitara og minnum við á mikilvægi þess að hafa opna glugga þegar gas er notað. Þá er ekki síður mikilvægt að slökkva á öllu gasi áður en fólk fer að sofa og setja gaskútinn út fyrir dyr. Aldrei á að nota gas í lokuðu rými innanhúss og yfir nótt, mikilvægt er að lofta um rými þar sem gas er í notkun.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við viljum hvetja öll til þess að huga að nágrönnum sínum, það er ekki víst að öll hafi haft tækifæri til að verða sér úti um hitara eða skilji þær leiðbeiningar sem sendar hafa verið út í dag um takmörkun á notkun þeirra. Þannig við vilja Almannavarnir hvetja öll til að passa upp á nágranna sína.

Álagið getur orðið þannig að heilu hverfin detti út og því er mikilvægt að íbúar standi saman. Almannavarnir vilja minna á að ástandið er tímabundið og mun vara að öllum líkindum fram á seinni part morgundagsins.

Varabirgðir heits vatns klárast að öllum líkindum um kl. 9 í kvöld. Unnið er að vinnu við bráðabirgðalögn sem búið var að koma í jörðu. Reiknað er með að viðgerð standi yfir til að minnsta kosti seinni parts á morgun. Búast má við því að þegar viðgerð lýkur taki það nokkurn tíma að ná rennsli á ný sem þýðir að fólk gæti þurft að fara mjög sparlega með vatnið fyrst þegar því verður hleypt á á nýjan leik.

Ráð til þess að sporna við varmatapi:

  • Loka hurðum
  • Loka gluggum, gæti þurft að þétta opnanleg fög meira en venjulega
  • Draga fyrir glugga
  • Byrgja fyrir stóra glugga t.d. með stóru teppi
  • Klæða sig í hlý föt svo sem ullarsokka, hlýjar peysur o.fl.
  • Ef hitað var upp vatn til eldunar mats að hella því ekki að eldamennsku lokinni, láta það standa til þess að hita upp rými

Fyrir þá íbúa sem hyggjast nota gashitara til að hita upp húsin sín á meðan ástandið varir er mikilvægt að hafa eftirfarandi þætti í huga:

  1. Huga þarf að loftskiptum í rýminu, ef rýmið er mjög loftþétt þá geta safnast upp skaðlegar lofttegundir. Hægt er að huga að loftskiptum með því að loka ekki hurðum í litlum rýmum og jafnvel loftræsta með viftu.
  2. Setja ætti upp gasskynjara í rýmum þar sem fólk hefst við, gas er þyngra en loft þess vegna skal staðsetja gasskynjara niður við gólf.
  3. Ekki yfirgefa rými þar sem verið er að kynda með gasi. Gott er að kynda í stuttum törnum.
  4. Gas lyktar illa stundum talað um rotið egg, ef þú finnur slíka lykt skaltu loka fyrir gasið strax. Í kjölfarið er mikilvægt að fara yfir tengingar til að athuga hvort allar þéttingar séu til staðar.
  5. Örugg notkun, með því að nota hitunartækið eins og framleiðandi gerir ráð fyrir, og gæta þess að gaskúturinn/hylkið standi upprétt. Ef gaskúturinn leggst á hliðina breytist gasið í vökva og við það myndast eldstungur.
  6. Gættu að því að ekkert eldfimt sé nálægt hitaranum t.d nælonefni, blöð, gardínur, gashylki osfrv.
  7. Ekki láta börn eða dýr vera eftirlitslaus í kringum gashitara. Börn geta brennt sig og velt hitaranum um koll.
  8. Við notkun á gashitunartæki getur myndast Kolmónoxíð, kolmónoxíð getur verið lífshættulegt ef ekki er brugðist við í tíma. Einkenni kolmónoxíðseitrunar eru: höfuðverkur, svimi, ógleði og rugl eða doði.

Ef fólk finnur fyrir einhverjum af þessum einkennum skal það loftræsta svæðið strax og fara í ferskt loft.

  1. Munum eftir öðrum valkostum til upphitunar svo sem kúra saman undir teppi, klæða sig í ullarsokkana sem amma gaf okkur í jólagjöf. Draga gluggatjöld fyrir glugga.