Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 22. nóvember 2001 kl. 08:46

„Mikilvægt að lögð sé fram stefna um framtíð flugvallarins“

Framtíð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefur verið mikið til umræðu af ýmsum ástæðum á liðnum mánuðum. Meðal annars hefur verið rætt um hvort flytja eigi innanlandaflug frá Reykjavík til Keflavíkur, rekstur verslana í flugstöðinni hefur ekki gengið sem skyldi og nú síðast hvernig eigi að markaðssetja flugvöllinn. Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótel Keflavíkur hefur ákveðnar skoðanir á þessum málum og gagnrýnir fyrrverandi stjórnendur ferða- og flugmála fyrir að hafa ekki reynt að halda í viðskipti við kanadíska flugfélagið Canada 3000 á árunum 1995-1999. Þau viðskipti skiluðu fyrirtækjum á Suðurnesjum umtalsverðum tekjum og tryggðu gríðarlega aukningu á ferðamönnum frá Kanada. Steinþór segir að þeir sem komi að þessum málum í dag verði að marka sér skýra stefnu um framtíð flugvallarins og þá möguleika sem staðsetning hans bíður uppá. 


Hættu lendingum á Íslandi
Canada 3000 var í stórviðskiptum á Íslandi á árunum 1995-1999 og var þá næst stærsti viðskiptavinur flugvallarins á eftir Flugleiðum, með allt að 16 lendingum á viku. Fyrirtækið fór nýlega í greiðslustöðvun en ástæður slæms gengis fyrirtækisins að undanförnu er m.a. yfirtaka þess á tveimur minni flugfélögum sem stóðu illa að vígi. Mikill uppgangur var hjá félaginu fyrstu árin og þegar það hætti lendingum á Íslandi haustið 1999 stóð félagið traustum fótum.
„Á árunum 1998-1999 fór félagið út í mikla endurnýjun á flugflotanum sem gerði m.a. að verkum að nýrri og stærri vélar þurftu ekki lengur að lenda á Keflavíkurflugvelli. Þessi endurskipulagning skilaði félaginu umtalsverðum hagnaði og tryggði stöðu þess enn frekar. Á sama tíma börðust önnur kanadísk flugfélög á bökkunum, m.a. Royal Air og CanJet. Canada 3000 ákvað að taka yfir þau fyrirtæki árið 1999 en ég tel að sú ákvörðun hafi verið úrslitavaldur fyrir að félagið var nýlega lýst gjaldþrota. Þess má geta að ríkisstjórn Kanada bauð félaginu 75 milljón dollara lán til að takast á við erfiðleikana en af einhverjum ástæðum tókst félaginu ekki að uppfylla skilyrði fyrir lánveitingunni.“

Miklar tekjur til Suðurnesja
Að sögn Steinþórs var koma Canada 3000 eitt mesta framfaraverk sem hann hefur sjálfur staðið fyrir enda  var það ekki bara fyrirtæki hans, Hótel Keflavík, sem hafði hag af á þessum viðskiptum við kanadíska flugfélagið. Flugleiðir sáu m.a. um alla matarbakka í þoturnar til og frá landinu og flugvöllurinn fékk einnig miklar tekjur af lendingargjöldum svo ekki sé minnst á óbein áhrif viðskipta vegna áhafna og farþega flugfélagsins. Hér er því verið að tala um hundruði milljóna króna í viðbótartekjur fyrir íslenskt þjóðfélag. 
„Á þessum árum jókst ferðamannafjöldi frá Kanada um mörg hundruð prósent. Mér finnst því undarlegt þegar ég hugsa til baka, hvað stjórnvöld, flugmálayfirvöld og forsvarsmenn ferðamála á þessum tíma hafi ekki séð ástæðu til að hafa samband við  mig eða stjórnendur Canada 3000, til að viðhalda og auka samskipti milli Kanada og Íslands. Ég sé það fyrir mér sem stór mistök sem ekki verða bætt úr þessu. Sú staðreynd að einn stærsti viðskiptavinur flugvallarins skuli ekki hafa verið boðaður til fundar meðan á viðskiptunum stóð til viðræðna um áframhaldandi flug til Íslands, af ofangreindum aðilum, er með ólíkindum“, segir Steinþór.

Þurfum að marka
okkur stefnu
Í dag eru óvissutímar í flugvallarmálum Íslendinga en að mati Steinþórs er mikilvægt að lögð sé fram stefna um framtíð flugvallarins og tryggja Flugleiðum traustan rekstrargrundvöll um leið og nýjir möguleikar eru kannaðir í hvívetna. „Flugvöllurinn er undir góðri stjórn í dag og hefur sem slíkur verið í mikilli uppbyggingu enda getur völlurinn annað mun meiri umferð en um hann fer í dag. Það er því forsvarsmanna í ferðamálum og stjórnvalda  að leita nýrra leiða til að ná inn viðskiptum á nýjum mörkuðum. Við verðum að horfa til framtíðar og nýta okkur alla þá fjölbreyttu möguleika sem styrkt geta íslenska ferðaþjónustu“, segir Steinþór að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024