Mikilvægt að Grindavík rísi upp að nýju
„Það er mjög mikilvægt að flýta vinnu við áhættumat þannig að við getum farið að hefja starfsemi á einn eða annan hátt og það er í raun hvimleitt að því sé ekki lokið. Við höfum haft lokað í tvo mánuði en stefnum að því að opna aftur í einhverri mynd í lok vikunnar,“ sagði Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, eftir fund fyrirtækja í ferðaþjónustu í Grindavík með Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, í gær, 3. janúar.
Eigendur ferðaþjónustuaðila og margra fyrirtækja í Grindavík lýstu yfir miklum áhyggjum með stöðu mála en þau hafa langflest verið með lokað eða mjög skerta starfsemi undanfarnar vikur vegna jarðhræringa og eldgoss. Sum hafa áhyggjur af því að þurfa að færa starfsemina eða jafnvel loka.
Lilja Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra kallaði fyrirtækjaeigendur til fundar á Sjómannastofunni Vör þar sem hún vildi heyra beint frá þeim hvernig staðan væri.
Margir fyrirtækjaeigendur stóðu upp og lýstu yfir miklum áhyggjum af stöðu mála. Margar spurningar og ábendingar komu fram sem beint var til ráðherra, m.a. hvernig hægt væri að styðja við fyrirtækin fjárhagslega en þau hafa nær öll verið tekjulaus í nærri tvo mánuði. Var m.a. spurt hvort ekki væri hægt að nýta reynslu úr heimsfaraldri, t.d. með tekjufallsstyrkjum. Einnig hvernig hægt væri að markaðssetja Grindavík þegar bærinn opnaði aftur.
„Þetta var mjög góður fundur og ég fékk að heyra nauðsynlegar upplýsingar sem við munum nýta okkur. Það er ekkert launungarmál að það þarf að vinna betur að mörgum málum, skilaboð stjórnvalda þurfa að vera skýr og ég mun fara með þessar upplýsingar frá þessum fundi með Grindvíkingum inn á borð ríkisstjórnarinnar. Það þarf að ljúka gerð áhættumats sem skiptir miklu máli en það er ekkert annað í myndinni en að reisa Grindavík við að nýju. Þar eru skapaðar miklar gjaldeyristekjur, líklega þær mestu í einu sveitarfélagi á Íslandi miðað við höfða-fjölda. Við höfum m.a. sett 100 milljónir króna í markaðssetningu í kjölfar þessa ástands sem hefur skapast og við horfum bjartsýn fram á veginn með alla þá miklu möguleika sem eru í Grindavík og í ferðaþjónustunni almennt, sem þessir atburðir hafa vissulega haft áhrif á.“
Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, sagðist ánægð með upplýsingarnar sem komu fram á fundinum en ljóst væri að það yrði að fara að taka næstu skref með meiri opnun í bæinn. „Við erum að setja saman starfshóp í samvinnu við ferðamálaráðherra og vonumst til að málin fari að skýrast á næstu dögum og vikum.“
Hjá Bláa Lóninu starfa 800 manns. Helga segir að allir séu spenntir að komast aftur í vinnu og hefja starfsemi aftur. „Við vonum að það verði horft til þess að við getum unnið innan þessara takmarkana en þá er auðvitað áhættumat algert lykilatriði og forgangsatriði að útfæra hratt og örugglega. Sérfræðingar þekkja þessi sprungusvæði og Reykjanesskagann, ef allt fer á versta veg getum við samt á auðveldan hátt rýmt innan þess þrengsta ramma sem gefinn hefur verið upp. Helsta hættan er hraunrennsli og þá ætti varnargarðurinn að koma sterkur inn,“ sagði Helga.