Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikilvægt að geta aðstoðað starfsfólk að verja heimili sín
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. nóvember 2023 kl. 07:05

Mikilvægt að geta aðstoðað starfsfólk að verja heimili sín

Forsvarsfólk fyrirtækja í Grindavík hélt fund eftir íbúafundinn

„Fyrir mér snýst þetta aðallega um að aðstoða fólk að verja heimili sín ef allt fer á versta veg,“ segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík en eftir íbúafund í íþróttahúsinu var haldinn annar fundur með forsvarsfólki fyrirtækja í bæjarfélaginu. 

Pétur var ánægður með fundinn en var lítið sofinn eftir ansi mikla skjálftahrinu í Grindavík aðfaranótt föstudags. „Ég var vakandi nánast alla þessa nótt, ég segi ekki að ég sé smeykur við þetta en það eru ónot í manni. Margt af starfsfólki okkar mætti svefnlítið til vinnu í gærmorgun og ég hef áhyggjur af líðan þeirra í önnum dagsins. Þetta var erfið nótt fyrir alla. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við vorum með innanhúsfund hjá okkur á fimmtudagsmorgun til að yfirfara okkar viðbragðsáætlanir og fengum Tomma rafvirkja, Boga frá björgunarsveitinni og Fannar bæjarstjóra til okkar á þann fund. Í framhaldi af því samtali fannst okkur eðlilegt að boða til fundar með þeim aðilum sem bera ábyrgð á innviðum svæðisins til að fá svör við spurningum okkar vegna þessarar alvarlegu stöðu. Í stað þess að hvert og eitt fyrirtæki væri að fá fund með þeim, töldum við best að boða til þessa fundar sameiginlega strax á eftir íbúafundinum. Þetta var góður fundur og það tókst að stilla saman strengi og þjappa fólki saman. Það kom kannski ekki margt nýtt í ljós sem hafði ekki komið fram á íbúafundinum en þó komu góðar ábendingar og fyrirspurnir. Það þýðir ekkert að velta upp hinum og þessum ef-um en fyrir mér snýst þetta mest um að fólki verði hjálpað að verja heimili sín fyrir skemmdum, svo sem frostsklemmdum ef hitinn fer af og svo að skaffa vatn og rafmagn sem nægir til að hafa húsin íbúðarhæf ef allt fer á versta veg. Ég treysti á að gripið verði til þeirra ráðstafana sem duga í þeim efnum, þar er ég að tala til innviðafyrirtækja, sveitarfélags, ríkis og tryggingafélaga. Þetta er forsenda þess að hægt verði að takast á við þá áskorun að halda samfélaginu gangandi í kjölfar þess sem hugsanlega getur gerst. Fyrirtækin sjálf eru nú í samvinnu við sömu aðila að vinna að því að geta haldið áfram rekstri sama hvernig allt fer. Um þetta snerist fundurinn í gær. Hitt er svo náttúrulega aðalatriðið nú sem endranær, að hafa góðar viðbragðáætlanir í upphafi allra atburða til að forða fólki úr hættu ef hún skapast. Það mun alltaf hafa forgang á allar aðrar athafnir,“  sagði Pétur.