Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikill viðbúnaður sjúkrabíla við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Föstudagur 19. júní 2009 kl. 12:02

Mikill viðbúnaður sjúkrabíla við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja


Mikill viðbúnaður var við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þrír sjúkrabílar voru sendir að stofnuninni. Þangað fóru bílarnir á forgangi og mátti heyra sírenuhljóðin víða að. Að skýrist af því að tveir sjúkrabílanna voru að koma af Reykjanesbrautinni en sá þriðji kom frá slökkvistöðinni við Hringbraut. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta voru áhafnir sjúkrabílanna sendar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til að aðstoða við endurlífgun á stofnuninni.

Víkurfréttir höfðu samband við Sigríði Snæbjörnsdóttur, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, og spurðu hver væri ástæða þess að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þurfi að kalla til sjúkraflutningamenn til að aðstoða við endurlífgun innan veggja HSS og hvort niðurskurður sé farinn að koma niður á öryggi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.

„Í gær var óhemju mikið álag á HSS sem er ekki óalgengt. Mönnun hefur verið óbreytt á vöktum hjá okkur, engin breyting er á læknamönnun vegna erfiðs fjárhagsástands,“ sagði Sigríður Snæbjörnsdóttir.

„Það var ekkert óeðlilegt í gangi hjá okkur, en þegar margir sjúkrabílar koma í einu með mikið veika sjúklinga er algengt að sjúkraflutningamenn staldri við og rétti hjálparhönd. Það er allra hagur, þeir halda sér í þjálfun og liðsinna starfsfólki sem hefur mikið að gera. Þetta kemur þeim best sem veikjast alvarlega, þ.e. sjúklingunum okkar,“ sagði Sigríður í samtali við Víkurfréttir.



Myndir: Þrír sjúkrabílar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gærkvöldi.




Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024