Fréttir

Mikill sparnaður og betra líf eldri borgara
Gunnar Jónsson er 94 ára og tekur á því í ræktinni. Örugglega sá elsti á Suðurnesjum. „Jú, svei mér ef þetta hefur ekki góð áhrif á mig,“ sagði sá gamli í spjalli við VF og Sjónvarp Víkurfrétta. VF-mynd/pket.
Sunnudagur 15. október 2017 kl. 12:00

Mikill sparnaður og betra líf eldri borgara

-Á annað hundrað eldri borgarar í fjölþættri heilsueflingu í Reykjanesbæ

Um 120 manns í Reykjanesbæ 65 ára og eldri hafa stundað fjölþætta heilsueflingu undanfarnar vikur undir handleiðslu Janusar Guðlaugssonar PhD íþrótta- og heilsufræðings. Janus segir að kostnaður við hvern einstakling á hjúkrunarheimili sé 12 til 15 milljónir króna á ári . „Ef ég næ að seinka einum einstakling um eitt ár inn á dvalar- og hjúkrunarheimili þá tel ég að við séum í rauninni búin að spara hjá hinu opinbera og greiða upp þann kostnað sem fer í þessa forvarnarleið.“

„Fjölþætt heilsurækt í Reykjanesbæ – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa 65+“ er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Sóknaráætlunar Suðurnesja og Janusar heilsueflingar slf. Fyrirmynd þess er sótt í doktorsverkefni dr. Janusar. Reykjanesbær er fyrst sveitarfélaga í landinu til að styðja verkefnið og fylgja því markvisst eftir. Megin viðfangsefnið er forvarnarstarf og heilsuefling á sviði líkams- og heilsuræktar fyrir eldri aldurshópa í Reykjanesbæ. Niðurstöður doktorsrannsóknarinnar sýndu að með markvissri fyrirbyggjandi heilsurækt eldri aldurshópa megi efla verulega afkastagetu þeirra og lífsgæði, ásamt því að draga úr áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Janus bendir á að aldurshópurinn yfir 60 ára muni nær þrefaldast á næstu fimmtán árum.
„Við reiknuðum með svona 60 til 80 þátttakendum hér í fyrstu lotu, en það skráðu sig yfir 120 þátttakendur og við fórum af stað með þann fjölda. Það má reikna með að eitthvað brottfall sé í þessum aldursflokki, en þau eru ótrúlega seig og dugleg og ég heyri það bara á þeim, nú eru þau að spyrja um framhaldið af því að þetta er ekkert átak í rauninni, þetta er lífstílsbreyting og hún tekur tíma. „Hagkerfið þarf líka að skoða þessa nálgun með tilliti til þessara miklu breytinga sem eru að eiga sér stað í eldri aldurshópum. Forvörnin er  tæki, ekki bara spörunar, heldur bætir og styrkir heilsutengd lífsgæði fólks þegar þú ert orðinn 60, 70 ára gamall og það er fullt eftir, því við erum farin að lifa lengur.“

Sjónvarp Víkurfrétta ræddi við Janus og nokkra þátttakendur í átakinu í líkamsræktarsalnum Massa í Íþróttahúsi Njarðvíkur í vikunni. Innslag úr heimsókninni er í þætti vikunnar í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og á vefsíðu Víkurfrétta, vf.is.