Mikill söknuður af starfsfólkinu
- segir Gunnar S. Olsen, framkvæmdastjóri IGS en öllu starfsfólki fyrirtækisins í veitingarekstri verður sagt upp störfum
Búið er að segja upp helmingi starfsfólks í veitingarekstri IGS í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fyrir liggur að fleiri missi vinnuna. Gunnar S. Olsen, framkvæmdastjóri IGS, dótturfyrirtækis Icelandair Group, í samtali við Víkurfréttir að það verði mikill söknuður af starfsfólkinu sem hverfur á braut enda fari með því mikið reynsla. „Við höfum verið í þessum veitingarekstri í flugstöðinni frá því að stöðin var byggð árið 1987 og margt af okkar starfsfólki hefur verið lengi í þessari vinnu,“ segir Gunnar. Hann segir að gerðar hafi verið ráðstafanir fyrir starfsfólk þannig að fólk fái greitt uppsagnarfrestinn sinn eftir réttindum. „Það verður að sjálfsögðu skoðað hvort eitthvað af fólkinu geti færst innan fyrirtækisins IGS en það er erfitt að meta það akkúrat núna þar sem vetrartíminn er auðvitað rólegri í flugstöðinni en vor-og sumarmánuðir. Það verður mikill söknuður af starfsfólkinu,“ bætir hann við.
Væri best að nýta starfskraftana sem eru til staðar
Gunnar segir að vitað hafi verið að þessi staða gæti komið upp. „Það var búið að liggja fyrir lengi að þetta stæði til, að farið yrði í útboð með verslunar- og veitingarekstur í flugstöðinni. Við vorum búin að ræða við fólkið okkar um að sú staða gæti komið upp að við yrðum ekki fyrsti kostur hjá flugstöðinni eða Isavia. Í sjálfu sér eru ekki margir valkostir í stöðunni fyrir okkur en við viljum auðvitað trúa því að þegar nýir aðilar koma inn í þennan rekstur að þá ráði þeir fólk með reynslu og hæfni á þessu sviði, sem okkar starfsfólk er svo sannarlega með. Maður myndi allavega hugsa það sjálfur ef maður væri á hinum endanum, að sniðugt væri að nýta starfskraftana sem til staðar eru,“ sagði framkvæmdastjórinn að lokum.