Fréttir

Mikill reykur en lítill eldur
Mánudagur 17. júlí 2017 kl. 08:58

Mikill reykur en lítill eldur

- í kísilveri United Silicon í nótt

Ofninn í kísilveri United Silicon í Helguvík verður ekki gangsettur aftur fyrr en eftir einn eða tvo daga í kjölfar óhapps við vinnslu í kísilverinu í nótt.
 
Mikill reykur myndaðist þegar 1700 gráðu heitur kísilmálmur flæddi m.a. yfir rafmagnskapla í óhappi í kísilverinu í nótt. 
 
Verið var að tappa kísilmálmi af ljósbogaofni verksmiðjunnar. Það er gert í gegnum gat sem hafði verið gert of stórt. Of mikill fljótandi málmur rann í gegnum gatið og yfirfyllti ker sem átti að taka við málminum. Þaðan komst fljótandi málmurinn meðal annars í rafmagnslagnir og kveikti í þeim. 
 
Starfsmenn United Silicon höfðu náð tökum á ástandinu áður en slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom á staðinn. Þá var fyllt í gatið og frekara flæði kísilmálmsins stöðvað.

Við óhappið myndaðist mikill reykur og sterk lykt. Reykinn lagði ekki yfir byggð. Allir starfsmenn verksmiðjunnar voru komnir út úr verksmiðjunni þegar slökkviliðið kom á vettvang. Slökkviliðsmenn þurftu hins vegar ekkert að aðhafast þar sem starfsmönnum United Silicon tókst að stöðva málmlekann og slökkva í rafmagnslögnum. 
 
Í frétt vf.is frá því í nótt var sagt að óhappið hafi verið við mötun á ljósbogaofninum, en það varð við aftöppun af honum. Það er leiðrétt hér með.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024