HSS sumarstörf 14-21 mars
HSS sumarstörf 14-21 mars

Fréttir

Mikill rekstrarbati hjá Kölku
Þriðjudagur 2. september 2014 kl. 09:24

Mikill rekstrarbati hjá Kölku

– Fjögurra ára endurskipulagningarferli kynnt

Á aðalfundi Kölku - Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf. sem haldinn var 21. ágúst sl. kom meðal annars fram að hagnaður ársins 2013 var um 177 milljónir króna. Fjárhagsstaða fyrirtækisins hafði verið mjög erfið en verulegum árangri hefur verið náð síðustu ár við að snúa rekstrinum til betri vegar.

Á aðalfundinum var kynnt endurskipulagningarferli sem samþykkt var af fráfarandi stjórn, að frumkvæði Ríkharðs Ibsen fyrrverandi formanni stjórnar. Ríkharður hafði framsögu í málinu og lýsti stöðu fyrirtækisins eins og hún var árið 2010 þegar stjórnin tók við, en þá var fjárhagsstaðan mjög erfið. Heildarskuldir voru um 1.350 milljónir króna og eiginfjárstaðan var neikvæð um 600 milljónir króna. Viðvarandi taprekstur hafði verið frá upphafi starfsemi brennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík og sameiginleg ábyrgð sveitarfélaganna kom í veg fyrir gjaldþrot fyrirtækisins. Mörg óleyst vandamál voru í rekstrinum og fyrirtækið uppfyllti ekki ýmis ákvæði í starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út.
Þar var stærst mála uppsöfnun á flugösku um nokkur þúsund tonn frá upphafi rekstrar brennslunnar árið 2004.

Ríkharður fór síðan yfir aðgerðir sem gripið var til eftir að úttekt á rekstrinum lá fyrir. Skipulagsbreytingar voru gerðar og nýr framkvæmdastjóri, Jón Norðfjörð var ráðinn til starfa á miðju ári 2011. Reksturinn var  algjörlega endurskipulagður með þeim árangri að viðvarandi taprekstri var snúið í hagnað öll árin á tímabilinu og samningar náðust við Íslandsbanka um lækkun lána sem nam um 500 milljónum króna. Yfirdráttarskuld fyrirtækisins upp á 173 milljónir króna var greidd upp.
Miklar breytingar voru gerðar í gjaldskrármálum þar sem jafnframt var dregið úr sífelldum og miklum hækkunum sorpgjalda á íbúa svæðisins. Viðhaldsmál hafa verið tekin fastari tökum með áherslu á fyrirbyggjandi viðhald og mörg ákvæði starfsleyfis hafa verið lagfærð og þar vegur þyngst að flugöskuvandinn hefur verið leystur með samningi við norska fyrirtækið Noah.

Í kynningu á endurskipulagningarferlinu tóku einnig til máls Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar sem m.a. lýsti ánægju með jákvæða þróun mála sem varða ákvæði starfsleyfisins. Þá ræddi Rósa Júlía Steinþórsdóttir, viðskiptastjóri Íslandsbanka um samskipti bankans við fyrirtækið um lækkunarferli á langtímaláni fyrirtækisins og sagði að verulegur rekstrarbati muni skila fyrirtækinu meiri fjárhagslegum stöðugleika. Anna Birgitta Geirfinnsdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Deloitte flutti síðan athyglisvert erindi um fjárhagslega þróun fyrirtækisins á árunum 2009 til og með 2013. Í máli Önnu Birgittu kom m.a. fram að rekstrarbati hefur verið stöðugur þessi ár og eiginfjárstaðan hefur batnað um 360 milljónir króna. Á tímabilinu hafa skuldir við lánastofnanir lækkað um 589 milljónir króna sem er um 48% og lýsti Anna Birgitta ánægju með þann árangur sem hefur náðst. Jón Norðfjörð, framkvæmdastjóri fór svo yfir nokkur atriði og þakkaði frummælendum fyrir þeirra framlag á fundinum. Jón sagði að nýskipuð stjórn fyrirtækisins taki við mun betra búi en fráfarandi stjórn þurfti að gera, en engu að síður væru næg verkefni framundan.

Aðalfundurinn var vel sóttur og mjög upplýsandi fyrir fundarmenn um þróun mála hjá fyrirtækinu, segir í tilkynningu.

Public deli
Public deli