Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikill metnaður settur í forvarnardaginn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 21. september 2024 kl. 06:00

Mikill metnaður settur í forvarnardaginn

Forvarnardagur ungra ökumanna var haldinn í 88 húsinu þriðjudaginn 10. september og var þetta í tuttugasta skipti sem þessi flotti dagur var haldinn og því var öllu til tjaldað á stórafmælinu. Það eru Brunavarnir Suðurnesja, Lögreglan, TM,  Samgöngustofa, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Reykjanesbær og 88 húsið sem standa að þessum viðburði sem er haldinn tvisvar á hverju ári, á haust- og vorönn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kolbrún Marelsdóttir kennir lýðheilsu í FS og hefur verið með frá upphafi.

„Þetta er í tuttugasta skiptið sem við höldum þennan dag og er gaman hversu vel hefur tekist til. Ég veit að skólar úti á landi eru að fylgjast með okkur og það er ánægjulegt fyrir okkur. Það eru allir fyrsta árs nemar sem mæta og fá bæði fyrirlestra og svo setjum við á svið umferðarslys. Við skiptum krökkunum upp í fjóra hópa og þau fá fyrirlestur frá TM, Samgöngustofu og Lögreglunni, síðasti hópurinn er svo úti á plani þar sem við erum með veltibíl og ölvunargleraugu.

Það er mikill metnaður settur í slysið sem við sviðsetjum en um banaslys er að ræða vegna ölvunaraksturs. Fyrst kom líkbíllinn og sótti hinn látna en í dag sér sjúkraflutningafólk um það. Lögreglan mætir á svæðið, handtekur ökumanninn sem var ölvaður og svo sýna slökkviliðsmenn hvernig bíll er klipptur til að komast að hinum látna eða sjúklingnum. Það er mikill metnaður lagður í þetta og ég vil meina að þetta séu forréttindi fyrir okkur hjá FS, að fá lögregluna og Brunavarnir Suðurnesja til að vinna þetta svona með okkur.

Mér skilst á þeim hjá Samgöngustofu að krakkar frá Suðurnesjum komi betur í ökukennslunni svo ég trúi því að þetta skili góðum árangri,“ sagði Kolbrún.

Kristján Freyr Geirsson eða Krissi lögga eins og hann er betur þekktur, er nokkurs konar samfélagslögga Reykjanesbæjar og tekur að sjálfsögðu þátt.

„Það voru aðrir sem byrjuðu þetta verkefni árið 2004 en ég var mjög fljótlega kominn að því. Hlutverk mitt og okkar í lögreglunni er að fræða krakkana um belta-notkun, ölvunarakstur og afleiðingar þess, höggþunga og síðast en ekki síst snjallsímanotkun en þrátt fyrir að búið sé að hækka sektina við því þá virðist það engu máli skipta. Það er allt of algengt að ökumenn, bæði ungir og aldnir, séu djúpt sokknir í símann sinn þegar einbeitingin á að vera á akstrinum, þetta er eitthvað sem við verðum að reyna breyta áður en illa fer. Ég er sannfærður um að þessi dagur skilar sér, krökkunum finnst þetta áhugavert og öll fræðsla er af hinu góða,“ sagði Krissi að lokum.