Mikill hugur í aðilum í ferðaþjónustu á Suðurnesjum
-Þeir sem kynnast svæðinu heillast algerlega
Þrátt fyrir að veðurfar hafi ekki verið með besta móti þetta sumarið þá halda ferðamenn áfram að streyma hingað til lands. Suðurnesjamenn vilja sína sneið af kökunni og statt og stöðugt er unnið að því að auka leiðir til þess að laða ferðamenn að svæðinu.
Þuríður Halldóra Aradóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Reykjaness segir mikinn hug í ferðaþjónustuaðilum á Suðurnesjum. Bæði hafa ýmsir nýir aðilar komið inn í ferðaþjónustuna og eins hafa rótgrónir aðilar verið að betrumbæta og stækka við sig. Þuríður segir jákvætt hversu mikið starf sé í gangi á Suðurnesjum og nefnir hún þar sérstaklega sprotafyrirtæki og frumkvöðlastarf, sem séu í mikilli sókn. „Það er eitt að vilja breyta einhverju en það er svo annað að taka þátt í hlutunum. Þátttakan skiptir öllu máli. Þetta gengur ekki upp nema fólk taki þátt og vinni saman,“ segir Þuríður sem er á því að allir aðilar sem komi að einhverju leyti að ferðaþjónustu séu loks að taka höndum saman og vinna að hagsmunum svæðisins í heild.
Sjálf er Þuríður frá Hvolsvelli en hún kom til starfa hjá atvinnuþróunarfélaginu Heklunnar fyrir tæpu ári síðan. Hún segir að hún hafi verið eins og margir aðrir landsmenn, með fremur neikvætt viðhorf gagnvart Reykjanesinu áður en hún fluttist hingað. Mikið hefur jú verið rætt um atvinnuleysi á svæðinu og þegar fjallað er um náttúruperlur Íslands ber Reykjanesið sjaldan á góma. „Ég varð alveg ástfangin af svæðinu eftir að hafa byrjað að vinna hérna. Það kom mér á óvart hversu mikið væri í gangi hérna. Svæðið hefur allar þessar náttúruperlur sem ég er nú algerlega heilluð af. Það auðveldar mér töluvert vinnu mína,“ segir Þuríður og hlær.
Þuríður segir að um þessar mundir sé mikið undirbúningsstarf í gangi. Verið sé að kortleggja svæðið og kanna hvernig nýta megi auðlindir þess með besta móti í ferðaþjónustu. Hvað er það sem við höfum í boði, hversu mörgum getum við tekið á móti? Þessum spurningum þarf að svara. Þuríður segir að þeir sem sjái um að selja ferðamönnum Ísland, virðast ekki þekkja nógu vel til hérna á svæðinu. Ætlunin er einnig að kortleggja alla þjónustu á svæðinu, þannig að svæðið sé í stakk búið til þess að taka á móti sem flestum.
„Það er búið að vinna heilmikla vinnu í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Nú er farið að líta meira á svæðið sem eina heild. Þetta er tiltölulega lítið landsvæði en við höfum ótrúlega mikið af fólki og þjónustu í boði. Hér er stutt í náttúruna en um leið er stutt í alla þjónustu, vegalengdirnar eru ekki það miklar miðað við annars staðar.“ Þuríður segir að um leið og þessari vinnu sé lokið þá sé hægt að taka næsta skref. Það væri þá ferðaþjónusta allan ársins hring en það er vel raunhæfur möguleiki og mörg tækifæri liggja þar.
Varðandi ferðasumarið í ár segir Þuríður að fólk sé mikið að ferðast innanlands en að sjálfsögðu hefur blessað veðrið sett strik í reikninginn. Þess má einnig geta að rúmlega 90 þúsund farþegar hafa komið hingað til lands í gegnum Keflavíkurflugvöll í júní í ár, en það eru rúmlega 15 þúsund farþegaaukning frá því í júní í fyrra.
Markmiðið er svo ávallt að fá heimamenn og aðra Íslendinga til þess að upplifa svæðið upp á nýtt. „Það er nánast undantekningalaust að þeir sem gefa sér tíma til þess að ferðast um svæðið okkar, þeir verða algerlega heillaðir,“ segir Þuríður að lokum.