Mikill eldur logar í Sorpeyðingastöð Suðurnesja
Nú í þessu er Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja og Slökkvilið Keflavíkurflugvallar að berjast við mikinn eld í Sorpeyðingastöð Suðurnesja við Hafnaveg. Eldur logar í sorpgryfju og ljóst er að slökkvistarfið mun taka nokkurn tíma.Þegar ljósmyndari Víkurfrétta kom á vettvang logaði mikill eldur í gryfjunni og þykkan reyk lagði frá stöðinni ásamt neistaflugi. Slökkviliðsmenn Brunavarna Suðurnesja voru fyrstir á staðinn og náðu fljótt tökum á bálinu sem logaði í sorpgryfjunni. Nokkur eldsprenging varð í gryfjunni en eldur komst ekki í sjálft stöðvarhúsið. Sorpgryfjan snýr í norður en stíf vestanátt var þegar slökkvistarf stóð sem hæst. Vindur náði því ekki að magna upp bálið. Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða áhrif bruninn mun hafa á starfsemi stöðvarinnar.