Mikill ávinningur af átaksverkefninu „Nám er vinnandi vegur“
Keilir – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs var í hópi þeirra skóla sem á dögunum undirrituðu samkomulag við stjórnvöld um að taka á móti atvinnuleitendum í nám haustið 2011. Átaksverkefnið, sem nefnist „Nám er vinnandi vegur“ tókst afar vel, og má sem dæmi nefna að alls hófu 113 nemendur nám við frumgreinadeildir á landsvísu að tilstuðlan þess. Af þeim völdu flestir að stunda nám við Háskólabrú Keilis eða í allt 53 nemendur og komu 58% þeirra frá Suðurnesjum.
Skrifað var undir samkomulagið á Háskólatorgi Háskóla Íslands 6. september síðastliðinn en með því er yfir þúsund atvinnuleitendum gert kleift að stunda nám í skólum landsins. Viðstödd voru Svandís Svavarsdóttr, starfandi mennta- og menningarmálaráðherra, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, fulltrúar háskólanna og sömuleiðis fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.
Meðal þess sem felst í átakinu er að þeir atvinnuleitendur sem hefja nám í haust halda bótum sínum til áramóta. Þá mun þeim sem stunda lánshæft nám standa til boða framfærslulán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Öðrum verður tryggð framfærsla með sérstöku úrræði sem verið er að útfæra.
Rúmlega helmingur nemenda á Háskólabrú Keilis frá Suðurnesjum
Aldrei hafa fleiri nemendur hafið nám í Háskólabrú Keilis. Núna í haust stunda 312 nemendur nám við skólann, sem gerir hann að meðal stórum framhaldsskóla á landsvísu. Af þeim eru 147 nemendur í staðnámi á Ásbrú, 31 nemandi í staðnámi í Háskólabrú á Akureyri og 134 nemendur í fjarnámi. Af heildarfjölda nemenda eru um 55% af Suðurnesjum eða rúmlega 170 nemendur.
Háskólabrúin er samstarfsverkefni Keilis og Háskóla Íslands. Á Háskólabrú er boðið upp á nám fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi, en að loknu námi hafa nemendur öðlast ígildi stúdentsprófs. Markmiðið með náminu er að veita nemendum góðan undirbúning fyrir krefjandi háskólanám.
Á þeim fjórum árum sem skólinn hefur starfræktur hefur Háskólabrú sannað sig sem mikilvægur og raunverulegur valkostur fyrir fólk sem hefur ekki lokið stúdentsprófi en hefur áhuga á að stunda háskólanám í framtíðinni.