Mikill áhugi fyrir búsetu á varnarsvæðinu: 750 nýjir íbúar á Keflavíkurflugvelli í haust
Líklegt er að um 750 íbúar verði á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í ágúst þar sem mikil eftirspurn hefur verið í 300 íbúðir þær sem Keilir hefur til umráða. Nú hafa alls borist um 350 umsóknir þannig að greinilegt er að „Vallarlífið“ höfðar til margra.
Þar munu nemendur Keilis, sem og nemendur háskóla á höfuðborgarsvæðinu búa ásamt fjölskyldum sínum. Margir nemendur verða að sjálfsögðu með fjölskyldur og er búist við að um 200 börn verði á svæðinu í haust, þar af um 70 á leikskólaaldri.
Spennandi skólaverkefni
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að Keilir hafi sótt um að reka leikskóla á vallarsvæðinu, í samstarfi við bæjaryfirvöld. „Verið er að horfa til samstarfs við Hjallastefnuna um rekstur á leikskólanum,“ sagði Árni og bætti því við að Hjallastefnan hefði þegar reynslu af því að reka leikskóla á háskólasvæði, þar sem endurnýjun er mun tíðari en annarsstaðar.
Hvað varðar börn á Grunnskóla aldri segir Árni tcær leiðir koma til greina. „Í fyrsta lagi væri hægt að taka börnin inn í Akurskóla eða Njarðvíkurskóla, en svo erum við líka að skoða þann möguleika að Hjallastefnan reki skóla á vallarsvæðinu fyrir fyrstu tvo eða þrjá bekki grunnskóla. Í þeim aldursflokkum eru flest börnin sem eru væntanleg og þau sem eldri eru yrðu þá tekin inn í Njarðvíkurskóla eða Akurskóla.
Þetta væri góð lausn og ekki síður athyglisvert skólaverkefni.“
Aðspurður að því hvort allt yrði tilbúið í tæka tíð sagðist Árni ekki efast um það. „Það er raunhæft að þetta muni allt leysast og liggja skýrt fyrir í júlímánuði.“
Enn hægt að sækja um hjá Keili
Mikil ásókn hefur verið í nám í Frumgreinadeild Keilis og gefst áhugasömum enn tími til mánaðarmóta til að sækja um. „Þetta gengur allt gríðarlega vel hjá okkur og framar björtustu vonum,“ sagði Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis. „Nú hafa rúmlega 130 manns sótt um í Frumgreinadeildna og við ætlum að taka inn um 100 nema, en ég hvet alla áhugasama til að sækja um á meðan tími gefst.“
Starfið hjá Keili er sífellt að hlaða utan á sig, en í síðustu viku var samþykkt að hefja vinnu við að sameina Íþróttaakademíuna og Keili, en akademían verður eftir það hornsteinnin í nýjum íþrótta-, heilsu-, og heilbrigðisklasa Keilis að sögn Runólfs.
„Ég held að í þessu felist mikil tækifæri, bæði fyrir vöxt Íþróttaakademíunnar og ekki síður fyrir Keili, því þarna hefur verið unnið mjög gott starf og búið að leggja fram mikla vinnu sem við lítum vel til. Þarna er komin þriggja ára reynsla af háskólanámi og gengur mjög vel. Aðsókn er góð og öll mál í mjög fínu standi og mjög gott starfsfólk þannig að það er mikill fengur fyrir Keili að fá þessa öflugu einingu inn í batteríið.“
Hann bætti því við að nemendur Akademíunnar ættu ekki að finna fyrir breytingum á starfinu, nema að þjónustan við nemendur myndi eflast til muna ef eitthvað væri.
Skipt um raflagnir
Nokkur umræða hefur verið um raflagnir í húsunum sem Keilir fær til umráða, en þær þarf að skipta um vegna mismunandi staðla í rafmagnskerfum hér á landi og í bandaríkjunum. Segir Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, að verið sé að vinna að þeim málum og íbúðirnar 300 verði tilbúnar áður en íbúar flytja inn. Kostnaðurinn við framkvæmdina sé nokkur en hlutfallslega í samræmi við kostnað raflagna í húsnæði almennt. „Þetta er ekki afgerandi hluti af kostnaðinum, en við horfum til þess að þetta sé gert á einhverjum tíma en verkefnið fyrir húsnæðið á vellinum í heild er af þeirri stærðargráðu að það er ekki gert á einni nóttu eða viku.“