Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikill áhugi á nýjum valkosti á húsnæðismarkaði
Sunnudagur 9. nóvember 2008 kl. 14:05

Mikill áhugi á nýjum valkosti á húsnæðismarkaði



Afar góð viðbrögð hafa verið við nýjum valkosti á húsnæðismarkaði, sem Húsanes hefur auglýst að undanförnu. Þar er fólki gefinn kostur á að leigja nýjar íbúðir til 15 mánaða, án vísitölu. Að leigutíma loknum á viðkomandi þess kost að kaupa fasteignina og gengur það fé sem greitt hefur verið í húsleigu óskert upp í kaupin.

Að sögn Halldórs Ragnarssonar hjá Húsnesi hafa viðbrögðin verið mjög góð enda hefur ekki áður verið boðið upp á þennan kost á íslenskum húsnæðismarkaði. „Við fórum nýlega af stað með 25 íbúðir í þessu kerfi og höfum þegar selt 13, þannig að þetta er greinilega eitthvað sem fólki finnst mjög álitlegt,“ segir Halldór. Hann segir að í grunninn sé verið að nota kerfi sem þekkst hefur áður en Húsanes taki skrefið lengra, t.d. með því að lengja leigutímann og taka vísitöluna úr sambandi. Þegar samningurinn er gerður sé skrifað undir fastan leigusamning sem hækkar ekki á tímabilinu, íbúðarverðið sé einnig fest.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Halldór nefnir sem dæmi 3ja herbergja íbúð við Dalsbraut sem leigð er á 105 þúsund krónur. Kaupverð hennar er 18,9 milljónir. Íbúðalánasjóður lánar 80%, sem gerir rúmar 15 milljónir. Húsaleigan, sem gengur upp í, er komin í tæp 1600 þúsund á leigutímanum. Fasteignafélagið Þrek lánar rúmar 2,2 milljónir, vaxtabætur eru tæpar 25 þúsund krónur.
Þetta þýðir að afborgun af fasteigninni eftir kaupsamning er þá rúmar 63 þúsund krónur.

„Við erum með þessu að mæta kreppunni og gefa fólki kost á að eignast íbúð,“ sagði Halldór.

Fasteignirnar sem um ræðir eru allar nýjar og staðsettar við Dalsbraut og Súlutjörn í Innri-Njarðvík. Þær eru afhentar með fullnaðar frágangi, hitalögn í gólfum, öllum heimilistækum, s.s. ísskáp, eldavél og örbylgjuofni. Allar íbúðirnar eru með sér-inngangi og svölum sem snúa í suður, svo nokkuð sé nefnt.

Sjá nánar á husanes.is

Mynd/elg: Frá Innri Njarðvík.