Mikill áhugi á nafnavali í Garði og Sandgerði
– Stefnir í 80% þátttöku
Nú stendur yfir könnun meðal íbúa sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis um nafn á nýja sveitarfélagið. Valið stendur milli þriggja nafna: Heiðarbyggð, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Miðgarður, og hefur sveitarstjórn lýst því yfir að hún muni hlýta niðurstöðunni verði þátttakan yfir 50% og eitthvert nafnanna hljóti stuðning fyri 50% þátttakenda.
Markaðsrannsóknafyrirtækið Zenter kannaði áhuga íbúa fyrir könnuninni núna í vikunni. Í niðurstöðunum kemur fram að fast að 80% íbúa sem geta tekið þátt í nafnavalinu hyggjast greiða akvæði eða hafa þegar gert það. Þetta kemur fram í frétt á vef sameinaðs sveitarfélags.
Að sögn Magnúsar Stefánssonar bæjarstjóra er bæjarstjórn mikið í mun að valið verði bindandi, og því lofi þessar niðurstöður góðu. Hann hvetur bæjarbúa til að skila sér á kjörstað sem fyrst.
Könnunin stendur yfir í ráðhúsunum í Garði og Sandgerði, en skrifstofurnar verða opnar til kl. 18 föstudaginn 2. nóvember. Jafnframt verður hægt að greiða atkvæði í Grunnskóla Sandgerðis og Gerðaskóla laugardaginn 3. nóvember milli kl. 10 og 20.
Allir íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu fyrir 26. október sem eru fæddir árið 2002 eða fyrr geta tekið þátt. Sveitarfélagið býður bæjarbúum í nafnakaffi í grunnskólunum milli 10-17 á laugardag.
Ánægja með sameiningu
Einnig var spurt um hug íbúa til sameiningarinnar sjálfrar. Þar kemur fram að ríflegur meirihluti íbúa, eða 64% eru ánægðir með sameininguna, en einungis tæp 15% óánægðir.