Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikill áhugi á fasteignum á Vellinum
Fimmtudagur 5. júlí 2007 kl. 18:10

Mikill áhugi á fasteignum á Vellinum

-Afgreiðsla hefur þó tafist

Sífellt eru að berast fréttir af vaxandi starfsemi á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Óhætt er að segja að í mörg horn sé að líta hjá Þróunarfélaginu sem hefur fengið mikil viðbrögð við þeim fasteignum sem hafa verið settar í sölu. Víkurfréttir höfðu samband við Kjartan Eiríksson, framkvæmdarstjóra, og spurðu hann út í helstu verkefni á svæðinu.


Nú eru liðnar nokkrar vikur síðan þið auglýstuð fyrstu eignirnar á svæðinu til sölu. Hvernig hefur salan gengið?
Hún hefur gengið vel og það er mikill áhugi fyrir því sem við erum að bjóða. Við erum að vísu ekki búin að klára öll mál varðandi fyrstu sölurnar. Ástæðan er sú að það hefur tekið lengri tíma en við reiknuðum með að fá íbúðirnar skráðar inn í íslenskt kerfi.
Við höfum þess vegna verið að rekast á þröskulda sem hefur þurft að leysa úr og málin gengið vel fram að þeim næsta. M.a. þurfti að færa svæðið milli sýslumannsembætta. Það tók einhverjar vikur en það er dæmi um mál sem hafa verið að tefja fyrir okkur.


Þetta eru þá bara byrjunarerfiðleikar?
Já, alveg klárlega. Þegar við erum búin að fara einu sinni í gegnum þetta ferli þá á það að vera komið.


Eru þetta stærri eða minni fyrirtæki sem hafa verið að skoða eignirnar?
Það eru frekar þau stóru sem hafa verið að skoða, en það mun svo skýrast á næstu misserum hverjir munu kaupa húsin og í hvað þau verða notuð.


Þegar herinn fór tóku íslensk stjórnvöld á sig allan kostnað vegna hreinsunar á menguðum jarðvegi. Hvar er það verkefni statt í dag?
Við erum búin að setja af stað úttekt með ráðgjöfum til að kortleggja menguðu svæðin nánar og móta ramman að því hvernig rannsóknir við þurfum að gera í byrjun. Sú vinna er í gangi og við erum nú farin að vinna kostnaðaráætlun að fyrstu skrefunum. Út frá því munum við skoða næstu aðgerðir, þ.e. hvar við eigum að hreinsa og hvort þurfi.


Hefur eitthvað óvænt komið í ljós þar?
Nei, og ég á ekki von á því. Miðað við þau gögn sem við erum með í hönundum og þá aðila sem við höfum rætt við og hafa komið að þessum málum í gegnum árin, á ég ekki von á því að það sé meira umfram það sem gögnin frá Bandaríkjamönnum segja. Síðan eru líka til gögn frá heilbrigðiseftirlitinu sem kortleggja þessi svæði ítarlega.


Víkurfréttir fá mikið af fyrirspurnum um það hvort Þróunarfélagið sé að leigja íbúðir undir erlenda verkamenn. Er það raunin?
Nei, það er ekki þannig. ÍAV er með erlenda aðila í sínum húsum en ég verð að segja að við höfum ekki orðið fyrir neinu ónæði af þeirra völdum. Þetta fer allt eftir því hvernig hlutunum er stýrt og kemur því ekkert við hvort þetta eru Íslendingar eða útlendingar.

Bráðlega munu fyrstu íbúarnir á vegum Keilis setjast að á svæðinu, eða um miðjan ágúst. Kjartan segir að vinna sé á fullu hjá Þróunarfélaginu þar sem ekki sér fyrir endan á spennandi nýjungum sem munu skýrast á næstunni.

 

Loftmyndir/Oddgeir Karlsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024