Mikil viðbrögð við sýningu í Landsbanka
Á Ljósanótt fékk listin svo sannarlega að njóta sín og voru sýningar úti um allan bæ á öllum mögulegum stöðum.
Þær stöllur Íris Þrastardóttir og Dagmar Róbertsdóttir voru með sýningu á verkum sínum í Landsbankanum sem mæltist afar vel fyrir.
„Viðbrögðin voru ótrúleg,“ sagði Dagmar í samtali við Víkurfréttir. „Við opnuðum sýninguna formlega klukkan eitt á laugardeginum og ég held að flestar myndirnar hafi verið seldar fyrir klukkan þrjú.“
Listakonurnar voru afar stoltar af móttökunum, en þetta er í fyrsta sinn sem þær setja upp svo stóra sýningu. Áhugasamir þurfa ekki að barma sér yfir að hafa misst af sýningunni því verkin munu vera til sýnis í Landsbankanum í vikutíma í viðbót að ósk forsvarsmanna bankans.
VF-mynd/Páll Ketilsson