Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil verðmæti fyrir Reykjanes
Laugardagur 28. júlí 2012 kl. 08:40

Mikil verðmæti fyrir Reykjanes

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa samþykkt að vinna að stofnun og þróun jarðvangs (e. geopark) á svæðinu. Stefnt er að því að sækja um alþjóðlega vottun á jarðvangnum og því stendur til að sækja um aðild að European Geoparks Network og UNESCO Global Geoparks Network.

Eggert Sólberg Jónsson er verkefnastjóri um stofnun og þróun jarðvangs og er hann með aðsetur hjá Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja í Eldey í byggingu 506 á Ásbrú.

Eggert segir að bundnar séu vonir við að árangur verkefnisins skili sér í fjölgun ferðafólks á svæðinu, eflingu vísindarannsókna, meiri samvinnu og uppbyggingu í ferðaþjónustu og dýpri og aukinni þekkingu á viðfangsefninu jarðvangur. Hann segir að verkefnið sé í dag að taka sín fyrstu skref og móta verkefnið en gert sé ráð fyrir formlegri stofnun Reykjanes Geopark nú í haust. Þá þarf einnig að samþykkja skipulagsskrár, vinna að merki, letri og litum og öllu sem lýtur að útliti og umgjörð verkefnisins. Samhliða þessu er verið að skrifa umsókn til Evrópusamtaka jarðvanga og fá þá vottun sem svæðið er að sækjast eftir til þess að mega kalla sig jarðvang (e. geopark). Þangað til svæðið fær vottunina má kalla verkefnið „Reykjanes Geopark Project“. Þegar vottunin er komin fellur „Project“ út og svæðið má kalla Reykjanes Geopark eða Jarðvanginn á Reykjanesi.

Aðspurður hvort hægt sé að fjölga ferðamönnum með stofnun jarðvangs, þá bendir Eggert á að fólk sé sífellt að mennta sig meira og því séu ferðamenn orðnir fróðleiksfúsari og vilji meiri upplýsingar um þá staði sem þeir sækja. Með aðild að þessum alheimssamtökum jarðvanga, fær Reykjanes vottun sem eitt af merkilegustu svæðum heims í þeim fræðum sem kallast geo-túrismi. Í vottun sem þessari felast mikil verðmæti, fyrir svæðið, ferðaþjónustuaðila og jafnvel framleiðendur sem eiga möguleika á að merkja vörur að þær séu framleiddar í jarðvanginum.

Hvað er jarðvangur?
„Jarðvangur er gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Fyrstu jarðvangarnir í heiminum voru stofnaðir undir lok tíunda áratugarins í Evrópu og Asíu. Fljótlega voru stofnuð samstarfsnet þessara jarðvanga með stuðningi UNESCO. Í dag eru 84 jarðvangar starfandi í heiminum með viðurkenningu frá samstarfsnetinu, þar af 50 í Evrópu.

Jarðvangar eru áhugaverð svæði vegna ýmissa hluta, s.s. rannsókna, fræðslugildis, fjölbreytilegrar náttúru, sjaldgæfra jarðminja o.s.frv. Markmið jarðvanga er að bæta viðhorf og þekkingu á jarðminjum og náttúru, byggja upp jarðfræðiferðamennsku t.d. með uppsetningu fræðsluskilta, bæta merkingar á gönguleiðum, gefa út þjónustu- og/eða gönguleiðakort o.s.frv. Ekki er þó eingöngu horft á jarðminjar því lögð er áhersla á að koma staðbundinni menningu og hefðum á framfæri, auka úrval matvæla úr héraði í verslunum og á veitingastöðum og koma handverki úr héraði á framfæri svo eitthvað sé nefnt. Jarðvangur byggir á þátttöku heimamanna og hefur skýra stefnu um sjálfbæra þróun,“ segir Eggert og tekur fram að Reykjanesskaginn sé eins og opin bók fyrir þá sem hafa áhuga á jarðsögu almennt og mótun heimsins.

Horft er á svæðið í jarðvanginum sem eina heild og leitast við að ferðamaðurinn nái að upplifa söguna, samtímann og hefðbundna menningu, landslag, jarðfræði, matarmenningu, listir og handverk sem og staðbundið gróðurfar og dýralíf. Leitast er við að gera ferðamanninum kleift að upplifa fyrrnefnda þætti í sátt við íbúa svæðisins og áhersla lögð á vellíðan ferðamannanna sem og einnig vellíðan íbúanna.

Hver er ávinningurinn af jarðvangi?
„Ávinningurinn af stofnun jarðvangs er hvort tveggja samfélags- og efnahagslegur. Stefnt er að því að jarðvangurinn verði lyftistöng fyrir svæði á sviðum ferðamála, framleiðslu og fræðslu. Má þar nefna að áhersla er lögð á nýsköpun og sjálfbæra þróun heima í héraði. Þá styrkist samkeppnishæfni svæðisins með auknu markaðsstarfi, betra aðgengi og öryggi að náttúruperlum, þróun fræðsluefnis, lengingu ferðamannatímans, betra aðgengi að erlendum styrktarsjóðum og aðild að alþjóðlegu neti jarðvanga“.

Eggert gerir ráð fyrir að jarðvangurinn nái yfir allt land sveitarfélaganna á Suðurnesjum, þ.e. Garðs, Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Voga. Öll sveitarfélögin hafa samþykkt þátttöku í Öll sveitarfélögiun á Suðurnesjum hafa samþykkt þátttöku í stofnun Reykjanes Geopark, auk fyrirtækja eins og Bláa lónsins, HS Orku, Keilis, Ferðamálasamtaka Suðurnesja og Reykjanesfólkvangs. Þá eiga fleiri möguleika á að koma að verkefninu á síðari stigum.

Af hverju Reykjanes?
„Reykjanes er tilvalið svæði fyrir jarðvang vegna legu sinnar og áhugaverðra jarðsögu- og menningarminja. Víðtæk áhrif jarðhræringa eru áþreifanleg um nánast allt Reykjanesið með einum eða öðrum hætti. Jarðvangur myndi sýna á fjölbreyttan hátt samspil náttúru og menningar að fornu og nýju og jarðmyndanir með sérstöðu á heimsvísu. Áhersla er lögð á að nýta þá sérstöðu til áframhaldandi þróunar og uppbyggingar á Suðurnesjum,“ sagði Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri Reykjanes Geopark, í samtali við Víkurfréttir.


Viðtal:
Hilmar Bragi Bárðarson

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024