Mikil uppbygging og keppst um byggingarlóðir
„Mig langar að byrja á því að óska sveitungum mínum öllum innilega til hamingju með daginn. Sameiningin gekk vonum framar og við hlökkum til framtíðarinnar. Verkefni sveitarfélagsins eru mörg og síbreytileg. Á næstu dögum stefnum við til dæmis að því að opna nýjan göngu- og hjólastíg milli hverfanna tveggja sem er gott dæmi um samhug meðal sveitarfélaganna fyrrverandi,“ sagði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar í gær en þá fagnaði Suðurnesjabær tveggja ára afmæli sínu. Sveitarfélagið varð til þann 10. júní árið 2018 eftir að sveitarfélögin Garður og Sandgerði sameinuðust í eitt.
Fyrsta rekstrarár sveitarfélagsins gekk vonum framar en Suðurnesjabær skilaði rekstrarafgangi upp á 37,2 milljónir króna. Góður rekstur sveitarfélagsins kemur sér vel á tímum sem þessum.
„Okkur gekk svo sannarlega vel á síðasta ári sem á eftir að koma okkur að gagni. Þrátt fyrir skertar tekjur höfum við ekki dregið úr þjónustu við íbúa. Mikil uppbygging á sér stað í sveitarfélaginu og keppst er um lóðir til að byggja á,“ segir Magnús.
Stefnt er að því að opna nýjan vef fyrir sveitarfélagið á allra næstu dögum en hann má nálgast á www.sudurnesjabaer.is.