Mikil þörf fyrir tæknimenntað starfsfólk
Atvinnulíf og iðnaður á Íslandi hefur sent frá sér skýr skilaboð um að uppbygging þekkingariðnaðar og framleiðslugreina á Íslandi kalli á mikla fjölgun tæknimenntaðra einstaklinga og því sé nauðsynlegt að fjölga til muna nemendum í tækninámi. Í ljósi þessa hefur Keilir ákveðið hefur verið að framlengja umsóknarfrest fyrir haustönn 2010 í tæknifræðinám til 21. júní næstkomandi, segir í tilkynningu frá skólanum.
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur beðið háskóla á Íslandi sem bjóða upp á tækni- og verkfræðinám, að framlengja umsóknarfrest til þess að gefa sem flestum kost á að vega og meta kosti þess að leggja stund á verk- og tæknigreinar.
„Ég held að ungt fólk átti sig ekki nægilega vel á því hve mikil þörf er á fólki með hvers konar verk- og tæknimenntun, ekki síst á hugbúnaðar-, raf- og véltækni af ýmsu tagi. Vaxtargreinar okkar þurfa á svona fólki að halda. Fáist það ekki geta fyrirtækin ekki vaxið hér á landi og það má ekki gerast“, segir Jón Steindór.
Ennfremur kemur fram í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins að það sé skylda okkar allra að gera allt sem við getum til þess að fá sem flesta til þess að mennta sig á þessum sviðum. Það er skylda jafnt stjórnvalda, skóla og atvinnulífsins.
„Við þurfum að gera betur grein fyrir hver framtíðin er og hvar tækifærin liggja. Við eigum fullt af fyrirtækjum sem við gætum kallað tækni- eða hugverkafyrirtæki sem selja afurðir sínar fyrst og fremst á erlenda markaði. Þar er að finna spennandi starfsvettvang og þörfin vex fyrir starfsfólk með rétta menntun og hæfileika. Samtök iðnaðarins hafa lengi hvatt ungt fólk til þess að mennta sig í þágu iðnaðarins í víðum skilningi.“
Keilir tekur undir þessa áskorun Samtaka iðnaðarins og hvetur nemendur sem hyggja á háskólanám að sækja nám í tækni- eða verkfræði. Einungis með vel menntuðu fólki á sviði raun- og tæknifræðigreina er hægt að ýta undir samkeppnishæfni og framtíðaruppbyggingu atvinnulífs og iðnaðar á Íslandi. Orku- og tækniskóli Keilis býður upp á tvær þverfaglegar námsbrautir í tæknifræði á háskólastigi, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník tæknifræði. Boðið er upp á námið í samstarfi við Háskóla Íslands. Skólinn leggur áherslu á gagnvirk samskipti við fyrirtæki og raunveruleg nemendaverkefni, sem tryggir tengsl nemenda við framþróun og vinnubrögð í atvinnulífinu. Sem liður í þessari stefnu skólans hefur nýverið verið stofnaður Verkefna- og nýsköpunarsjóður Keilis, sem er ætlað að veita nemendum tækifæri á að vinna raunveruleg verkefni í samstarfi við atvinnulífið og stuðla þannig að aukinni nýsköpun og uppbyggingu í tæknigreinum á Íslandi.