Mikil tekjuaukning hjá Isavia en skuldsetning tefur framþróun
Aukin farþegaumferð um Keflavíkurflugvöll skilaði auknum tekjum til Isavia ásamt aukningu á flugumferð yfir Norður- Atlandshafið. Tekjur félagsins jukust um 767 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið 2010. Aukningin er jákvætt skref í þá átt að gera Keflavíkurflugvöll að sjálfbærri rekstrareiningu en mikilvægur líður í því var að lágmarka aukinn rekstrarkostnað sem fylgir auknum farþegafjölda.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði jókst um 246 milljónir króna milli ára en þess ber að geta að afkoma félagsins er jafnan betri á síðari hluta ársins. Vel heppnað markaðsstarf flugfélaganna og átakið „Inspired by Iceland“ hefur skilað umtalsverðri farþegaaukningu á Keflavíkurflugvelli það sem af er seinni helmingi þessa árs.
Rúmt ár er nú liðið frá sameiningu opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar í Isavia ohf. Dótturfélag Flugstoða, Flugfjarskipti, sameinaðist félaginu 1. júlí 2010. Helsta markmiðið með sameiningu félaganna var að skapa sterkari einingu sem yrði betur í stakk búin til að bregðast við tækifærum og eða ógnunum sem framtíðin bæri í skauti sér. Rekstur félagsins var endurskipulagður og er það mat stjórnar félagsins að vel hafi tekist til. Beinn fjárhagslegur ávinningur af sameiningunni er metin á rúmlega 200 milljónir en auk þess sýna rekstrartölur fyrstu mánuði ársins að aðhaldsaðgerðir og stefnumörkun félagsins í ársbyrjun hefur skilað góðum árangri.
Heildarafkoma Isavia er neikvæð um 497 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins en rekja má þennan taprekstur til gengistaps sem nam 822 milljónum króna á tímabilinu. Þótt rekstur félagsins sé góður er niðurstaðan neikvæð sökum mikillar skuldsetningar og nægja tekjur ekki til nauðsynlegrar uppbyggingar og framþróunar. Ljóst er að enn um sinn muni ríkissjóður verða að fjármagna sérstaklega öll stærri verkefni við endurbætur og uppbyggingu flugvallarmannvirkja og flugleiðsögubúnaðar svo fullnægjandi framþróun og öryggi í flugsamgöngum verði tryggð með bestum hætti.