Mikil óvissa ef fjárhagsstjórn verður skipuð í Reykjanesbæ
„Ég vona auðvitað að samningar takist því við höfum nokkuð skýra sýn á hvað sú leið þýðir og hvaða jákvæðu áhrif hún myndi hafa. Hin leiðin þ.e. skipun fjárhagsstjórnar hefur algjöra óvissu í för með sér fyrir alla aðila,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ þegar hann var spurður út í framhaldið með kröfuhafa og hvort hann væri bjartsýnn á hagstæða niðurstöðu í þessu erfiða máli.
Ef skipuð yrði fjárhagsstjórn er ljóst að það myndi hafa alvarlegar afleiðingar:
„Líklega myndi fjárhagsstjórn sjálfkrafa fá greiðslustöðvun og síðan þurfa að fara kynna sér málin. Það gæti tekið langan tíma. Síðan myndi hún snúa sér að því verki sem er mikilvægast hverju sinni þegar hún hefur kynnt sér málið. Sú leið er allt öðruvísi í framkvæmd, byggir á annarri nálgun að flestu leyti t.a.m. um hver skuldavandinn er. Hann yrði þá líklega skilgreindur nær 10 milljarðar kr. af þeirri ástæðu að rekstur sveitarfélagsins yrði á margan hátt lakari og getan til að þjóna skuldir mun minni. Sú leið byggir ekki á heildarlausn heldur yrði klæðskerasaumuð að hverjum kröfuhafa fyrir sig m.t.t. trygginga o.fl. Líklega yrði byrjað á að tryggja þjónustu í skólakerfinu og annað látið bíða. Þegar samningar hefðu náðst um kaup á skólunum af Fasteign hf. myndu menn snúa sér að næsta kröfuhafa og svo koll af kolli.
Við teljum ekki heimilt að nota viðbótaálögur á íbúa til að greiða niður skuldir, aðeins til að tryggja grunnreksturinn. Fjárhagsstjórn myndi samkvæmt því ekki virka sem innheimtumenn fyrir kröfuhafa. Þegar búið væri að tryggja lögboðin verkefnin gæti fjárhagsstjórn fyrst farið að snúa sér að þeim verkefnum sem ekki eru lögbundin í ákveðinni röð miðað við mikilvægi viðkomandi starfsemi fyrir íbúanna. Það gætu því líklega liðið einhver ár þar til þeir svo mikið sem setjast niður með kröfuhöfum Reykjaneshafnar svo dæmi sé tekið. Það er því mitt mat að samningaleiðin sé miklu betri fyrir alla aðila, ekki síst íbúana.“