Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil og neikvæð áhrif á rekstur Suðurnesjabæjar
Föstudagur 14. apríl 2023 kl. 06:12

Mikil og neikvæð áhrif á rekstur Suðurnesjabæjar

Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir alvarlega athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Frumvarpið byggir á niðurstöðum og tillögum starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem kynntar voru nú í mars 2023. Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs Suðurnesjabæjar á skýrslu starfshóps um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga ásamt drögum að lagafrumvarpi um heildarlög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Í skýrslu starfshópsins kemur m.a. fram að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Suðurnesjabæjar mun lækka um 144,4 milljónir króna frá viðmiðunarárinu 2022 þegar breytt kerfi tekur að fullu gildi, eða um 23,4%. Það er ljóst að ef tillögur starfshópsins verða að lögum með samþykkt frumvarpsins og framlag Jöfnunarsjóðs lækkar eins og að framan er greint, þá mun það hafa í för með sér mikil og neikvæð áhrif á rekstur Suðurnesjabæjar til að standa undir lögbundinni þjónustu, sem og annarri þjónustu og starfsemi sem sveitarfélög þurfa að halda úti í nútíma samfélagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarráð Suðurnesjabæjar leggur til að skoðað verði sérstaklega hvort ekki er ástæða til að veita sérstök framlög úr Jöfnunarsjóði til sveitarfélaga sem veita þjónustu og taka utan um fylgdarlaus börn sem koma til landsins og falla undir lög um barnavernd. Viðkomandi sveitarfélög þurfa að bera beinan og óbeinan kostnað vegna þessarar þjónustu sem er lögbundin og felur það í sér sérstakar áskoranir fyrir viðkomandi sveitarfélag og á slíkt sérstaklega við um Suðurnesjabæ. Jafnframt er ástæða til að benda á þau vinnubrögð ríkisins að án nokkurs samráðs við sveitarfélög er einstaklingum sem leita til landsins sem flóttamenn og leita eftir alþjóðlegri vernd komið fyrir í búsetu í sveitarfélögum sem ekki hafa gert samning við ríkið um samræmda móttöku flóttamanna. Vegna þessara vinnubragða ríkisins fellur beinn og óbeinn kostnaður á viðkomandi sveitarfélög, án nokkurs fyrirvara og án samráðs við viðkomandi sveitarfélög. Bæjarráð leggur til að skoðað verði sérstaklega hvort ekki er ástæða til þess að Jöfnunarsjóður veiti viðkomandi sveitarfélögum sérstök framlög til að mæta þeim kostnaði sem um ræðir.

Nánar er fjallað um málið á vef Víkurfrétta, vf.is.