Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mikil líf á fasteignamarkaði en vantar minni íbúðir
Margir komu að skoða nýtt forsmíðað fjölbýlishús við Móavelli í Reykjanesbæ.
Föstudagur 8. mars 2019 kl. 06:00

Mikil líf á fasteignamarkaði en vantar minni íbúðir

-Margir komu að skoða nýtt forsmíðað fjölbýlishús í Reykjanesbæ þar sem boðnar voru íbúðir undir 20 millj. kr. Annar verktaki seldi 24 íbúðir á sýningarhelgi

Nokkur hundruð manns komu til að skoða íbúðir við Móavelli í Reykjanesbæ um síðustu helgi en þar voru ódýrustu íbúðirnar á 19,9 milljónir króna. Í síðasta mánuði seldust 24 íbúðir í Trönudal í Innri-Njarðvík á sýningarhelgi en þar voru ódýrustu íbúðirnar á 29,9 millj. kr. „Við höfum aldrei séð svona marga koma á „Opið hús“ en það er ljóst að markaðurinn kallar á ódýrari og minni eignir. Hreyfing í dýrari eignum er mun minni,“ segir Brynjar Guðlaugsson, fasteignasali hjá Stuðlabergi sem er söluaðili íbúða við Móavelli.

Tuttugu og sjö íbúðir, 2ja, 3ja og 4ra herbergja við Móavelli í forsmíðuðu fjölbýlishúsi á vegum Klasa ehf. voru sýndar sl. laugardag en þær eru framleiddar í Noregi af aðila með áratuga reynslu þar sem þær hafa verið vinsælar og reynst vel. Allar minnstu íbúðirnar seldust á sýningarhelginni og nokkrar af þeim stærri eða um helmingur af íbúðunum í húsinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Byggingaverktakinn Sparri ehf. auglýsti í Víkurfréttum 24 íbúðir við Trönudal í febrúar og seldi allar eignirnar sýningarhelgina. „„Við áttum alls ekki von á þessu en þetta var auðvitað ánægjulegt, “ segir Guðborg Eyjólfsdóttir hjá Sparra. Um er að ræða 3ja og 4ra herbergja íbúðir í fjórum sexbýlishúsum, frá 76 fermetrum upp í 93 fermetra og verðin voru á bilinu 29,9 til 34,5 millj. kr. Sparri er að hefja byggingu á minni íbúðum í Innri-Njarðvík, 70 fermetra og minni þar sem stílað verður inn á yngra fólk eða þá sem eru að kaupa í fyrsta skipti.

Brynjar hjá Stuðlabergi segir að það sé mikil hreyfing á fasteignamarkaðinum en vöntun sé á minni íbúðum. Verktakar hafa byggt meira af stærri íbúðum. Margir séu í þeim sporum að vilja skipta, eldra fólk að minnka við sig, yngra fólkið að kaupa í fyrsta sinn og og þeir sem vilja stækka við sig í millistærð. „Það hefur vantað aðeins í keðjuna getum við sagt. Margir eru að hugsa sér til hreyfings en dæmið hefur ekki alltaf gengið upp. Það hafa mörg tilboð ekki gengið upp.“

Brynjar segir að hækkanir sem hafi verið miklar á undanförnum árum hafi stöðvast á eldri eignum. „Það var mikil vöntun á eignum á síðustu árum og þá fóru margar á yfirverði. Kaupendur voru sáttir því eignirnar hækkuðu fljótlega þó það hafi verið borgað yfirverð einhverjum vikum eða mánuðum áður. Nú hefur hægst á þessari hækkunarhrinu en engu að síður er mikið líf og hreyfing og allt útlit fyrir að svo verði áfram.“

Sparri ehf. Seldi 24 íbúðir á sýningarhelgi við Trönudal í Reykjanesbæ.