Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Mikil hækkun bílastæðagjalda við FLE
  • Mikil hækkun bílastæðagjalda við FLE
Mánudagur 8. febrúar 2016 kl. 09:26

Mikil hækkun bílastæðagjalda við FLE

Bílastæðagjöld við Flugstöð Leifs Eiríkssonar munu hækka umtalsvert frá og með 1. apríl nk. Gjald á skammtímastæði sem er í dag 230 kr. á klukkustund fer upp í 500 krónur fyrir fyrstu klukkustund og 750 kr. á klukkustund  eftir það. Fyrstu 15 mínúturnar eru gjaldfrjálsar.

Í frétt á heimasíðu Isavia segir:

Vegna mikillar fjölgunar farþega um Keflavíkurflugvöll og aukinnar aðsóknar að bílastæðum við flugvöllinn er nauðsynlegt að fara í framkvæmdir við fjölgun þeirra. Gríðarleg aðsókn hefur verið í bæði skammtíma- og langtímastæði og á álagstímum hafa myndast langar biðraðir. Á langtímastæðum er nýtingin allt að 96% sem þýðir að færri en 100 af 2.100 stæðum eru laus á álagstíma. Af þessum sökum verður gjaldskránni breytt og bílastæðagjöldin hækkuð, svo þau geti staðið undir kostnaði við stækkunarframkvæmdir. Einnig er nú hafin gjaldtaka á starfsmannabílastæðum við flugstöðina. Gjaldskrárbreytingin tekur gildi 1. apríl 2016.

Þrátt fyrir hækkunina verður enn mun ódýrara að leggja bílum á stæðum við Keflavíkurflugvöll en á helstu alþjóðaflugvöllum í Evrópu. Áfram verða fyrstu 15 mínúturnar gjaldfrjálsar í skammtímastæðum.

Gjaldskrárbreyting á skammtímastæðum:

Skammtímastæði P1 og P2, verð nú 230 kr. á klst.:

    Fyrstu 15 mín. gjaldfrjálsar
    Fyrsta klst. 500 kr.
    Hver klst. eftir það 750 kr.

Gjaldskrárbreyting á langtímastæðum:

Langtímastæði P3:


    Fyrsta vika úr 950 kr. í 1.250 kr. pr. sólarhring
    Önnur vika úr 600 kr. í 950 kr. pr. sólarhring
    Þriðja vika úr 400 kr. í 800 kr. pr. sólarhring

Stefnan að bílastæðin standi undir sér

Isavia hefur þá stefnu að tekjur af bílastæðum standi undir kostnaði við þá þjónustu sem þar er veitt og þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í. Með þessum breytingum á verðlagningu bílastæða verður hægt að fjölga bílastæðum í takt við farþegaaukningu.. Framkvæmdir eru þegar hafnar við ný starfsmannastæði og núverandi starfsmannastæði munu því fljótlega bætast við langtímastæðin. Við þessa framkvæmd mun farþegastæðum fjölga um 300.

Hækkunin nú er óhjákvæmileg til þess að standa undir umbótum í bílastæðamálum og bættri þjónustu. Þegar gjaldskráin var síðast endurskoðuð var gefið út að verð myndi haldast í hendur við gjaldskrá P1 bílastæða í Reykjavík. Vegna gríðarlegrar fjölgunar farþega umfram þær spár sem lágu fyrir við síðustu endurskoðun þarf að flýta framkvæmdum og því reynist ekki mögulegt að halda þeirri verðstefnu óbreyttri.

Góðar samgöngur úr höfuðborginni

Samgöngur á milli Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eru mjög góðar og hafa aukist til muna síðustu misseri og eru tíðar rútuferðir í tengslum við öll áætlunarflug. Þá er Strætó einnig með ferðir milli Reykjavíkur og Keflavíkur í sinni áætlun. Farþegum er bent á þann kost sem er bæði umhverfisvænn, þægilegur og hagkvæmur ferðamáti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024