Mikil fjölgun útkalla hjá BS milli ára
Árið 2008 var annasamt hjá Brunavörnum Suðurnesja. Útköllum fjölgaði um 17,6% frá árinu 2007. Samtals voru 2259 útköll á slökkvilið og sjúkrabíla og þar eru sjúkraflutningarnir fyrirferðamiklir eins og fyrri ár eða 91,5% heildarútkalla.
Tæplega helmingur af öllum sjúkraflutningum er út fyrir þjónustusvæði BS.
Starfsmenn BS sinntu 2066 sjúkraflutningum árið 2008 en árið á undan voru þeir 1758 sem er aukning um 308 flutninga. Það sem vekur athygli er að af þessum 2066 flutningum voru 965 flutningar út fyrir þjónustusvæði BS sem lengir útkallstíma svo um munar og eykur því mikið álag á starfsmenn.
Hjá BS eru 4 menn á vakt, dag sem nótt og 4 dagmenn eru við störf milli 8-17 alla virka daga. Þegar sjúkrabíll fer í flutninga út fyrir áður nefnt þjónustusvæði veikist útkallsstyrkur vaktarinnar og því þarf að treysta á að menn sem eru á frívöktum komi til fylla í skörðin. Álag á starfsmenn BS hefur aukist mjög á síðustu árum og miðað við þær breytingar sem boðaðar hafa verið á rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á álagið eftir að aukast vegna fjölgunar á flutningum út fyrir þjónustusvæði BS.
Töluverð fækkun útkalla á slökkvilið.
Ljósi punkturinn er að útköllum fækkaði umtalsvert á slökkvilið sem er jákvæð þróun. Árið 2007 voru útköllin 293 en 2008 193, sem sagt fækkun um 100. Til samanburðar var hlutfall sjúkraflutninga af heildarútköllum árið 2007 83,4% en 2008 91,5% eins áður var nefnt.
Mikil fjölgun íbúa á Suðurnesjum síðustu ár.
Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað mjög ört á síðustu árum og ber þar helst að nefna Vallarheiði en þar hefur heilt samfélag risið á skömmum tíma og svæðið sem BS sinnir stækkaði mjög mikið enda fjölmargar byggingar sem þar eru ásamt þeim mikla fjölda fólks sem býr þar.
Útlit fyrir frekari fjölgun útkalla á nýju ári.
Það sem af er ári 2009 eru engin merki um að útköllum fækki, þvert á móti er allt útlit fyrir að þeim fjölgi og því ljóst að álag á starfsmenn BS mun aukast enn frekar eins og áður sagði. Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja hafa ávallt lagt mikið á sig í að veita íbúum sem allra bestu þjónustu og þar verður engin breyting á, segir í tilkynningu frá Brunavörnum Suðurnesja.