Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Mikil eftirspurn eftir fisktækni  á pólsku
Sumarnám er hafið í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 13. júní 2020 kl. 07:39

Mikil eftirspurn eftir fisktækni á pólsku

Sumarnám hafið í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Glymdrandi viðbrögð við „Sjávarakademíu“.

Sautján nemendur af pólskum uppruna hófu nám í fisktækni í Grindavík síðasta mánudag. Námið er sumarnám sem veitir tíu einingar og stendur yfir í fimm vikur. Kennt er á pólsku og íslensku en námið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og þátttakendur greiða því einungis þrjú þúsund krónur í skólagjöld.    

„Óhætt er að segja að eftirspurn eftir þessu sumarnámi hafi farið fram úr björtustu vonum okkar,“ segir Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari Fisktækniskólans, en byrjað var að auglýsa námið í síðustu viku. Mjög stór hluti starfsmanna í vinnslu og fiskeldi á Íslandi kemur frá Póllandi og fjölmargir tala litla sem enga íslensku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kröfum fyrirtækja mætt

„Til að mæta kröfum fyrirtækja um meiri menntun starfsfólksins höfum við því verið að þýða námsefni og leiðbeiningar til að undirbúa þetta námsframboð allt síðastliðið ár. Við vorum því vel í stakk búin til að takast á við þetta núna, þegar atvinnuleysið skall á. Gert er ráð fyrir því að halda áfram í haust og bjóða þá upp á fulla 30 eininga námsönn. Það er eftir töluverðu að slægja,“ segir Ólafur og ekki bara fyrir íslenskt starfsfólk í greininni. Fyrir utan auknar gæðakröfur eru mörg fyrirtæki að tæknivæðast og vilja því fá til sín betur menntað starfsfólk.   

„Þetta tveggja ára nám er mjög hagnýtt og gefur 120 einingar á framhaldsskólastigi. Að því loknu er möguleiki á framhaldi við skólann á nokkrum sérbrautum, svo sem á sviði Marel-vinnslutækni, gæðastjórn og í fiskeldi, allt eins árs sérnám sem mikil eftirspurn er eftir í greininni í dag. Þá má geta þess að starfsmaður sem lokið hefur grunnámi í fisktækni  fær samkvæmt kjarasamningi fimm launaflokka ofan á ófaglærðan.

Þetta eru frekar víðsjárverðir tíma á vinnumarkaði og við búumst við töluverðri fjölgun umsókna  í nám hjá okkur í haust. Fólk áttar sig á því að vinna í greininni er mikið að breytast. Þeim fækkar þeim smáu og sem einungis styðjast við gamla handbragðið en halda helst vinnunni og fá betur launuð störf sem mennta sig og eru tilbúnir að taka þátt í þróuninni.“

Glymdrandi viðbrögð við „Sjávarakademíu“

Aðspurður um nýtt námsframboð í haftengdri nýsköpun undir nafninu „Sjávarakademían“, sem kynnt var í Húsi sjávarklasans í síðustu viku, segir Ólafur að viðbrögðin hafi sýnt að mikill áhugi er á því námi. „Við erum nú rétt að byrja að auglýsa það nám en viðbrögðin nú þegar hafa sýnt að það er mjög mikill áhugi á þessu námi einnig. Fólk er að sjá að það eru ótal tækifæri í hafinu, annað en að veiða þorskinn, og ánægjulegt að segja frá því að það er fólk með góða almenna menntun fyrir, sem hefur verið að spyrjast fyrir um námið. Við stefnum á að hefja kennslu í Húsi sjávarklasans að Granda þann 15. júní. Við erum með valinn mann í hverju rúmi til kennslu og leiðsagnar. Við ætlum að vera með hámark tólf nemendur í hóp og miðað við viðtökur má reikna með að það fyllist í það nám fljótlega. Það er sem fólk sé að vakna og sjá þau óendanlegu tækifæri sem eru í þessu geira og þegar þú setur áhugasamt fólk inn í miðju þess fjölbreytta umhverfis, sem sjávarklasinn er, þá gerast undrin. Við byrjum á ellefu eininga námi í fjórar til fimm vikur þar einnig en stefnum einnig á að kenna fulla námsönn (30 einingar) í Húsi sjávarklasans og á Suðurnesjum í haust.“