Mikil bið eftir elliheimilisplássum
Á Garðvangi dvelja að jafnaði 38 vistmenn og var nýting rúma um 98% árið 1999. Biðlisti er eftir vistun á Garðvang nú sem endranær og telur hann 13 manns. Launahækkanir fagfólks námu um 33% á síðasta ári og sköpuðu þær hækkanir töluverða rekstrarerfiðleika þar sem launagreiðslur voru fjarri áætlunum ríkisins. Þetta var meðal þess sem kom fram á aðalfundi Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum sem haldinn var fyrir skömmu.Í desember fékkst framlag úr aukafjárlögum sem bætti 80% af rekstarvanda Garðvangs. Framlag sveitarfélagsins til endurbóta var 4 millj.kr. og hluti rekstrarfjár var nýttur til endurbóta á matsal og til kaupa á búnaði í hann. Endurbótum er þó langt því frá lokið en Framkvæmdasjóður aldraðra hefur veitt 3.6 millj.kr. vegna nýjasta hluta hússins og loforð er komið frá sjóðnum um rúmlega einnar millj. kr. framlag á þessu ári.Legudagar á Hlévangi eru nokkuð færri en á Garðvangi en heimilið var fullnýtt á síðasta ári og nokkuð var um hvíldarinnlagnir. Biðlisti á Hlévang telur nú 16 manns en meðalaldur heimilisfólks þar er töluvert hærri en á Garðvangi. Hvað varðar fjármál Hlévangs kemur fram í fundargerðinni að nýtt starfsmat hafi sett launakostnaðaráætlanir úr skorðum og að fyrir höndum séu kostnaðarsamar framkvæmdir vegna viðhalds utanhúss.