Mikil ánægja með fyrirkomulag hátíðarhalda 17. júní í Reykjanesbæ
„Mikil ánægja reyndist með fyrirkomulag hátíðarhalda 17. júní í Reykjanesbæ í ár og fullur vilji til að halda áfram að þróa þá útfærslu,“ segir í afgreiðslu menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, sem fundaði 18. ágúst síðastliðinn. „Það liggur þó fyrir að kostnaður við að halda úti dagskrá á fjórum stöðum í stað eins er töluvert hærri og því nauðsynlegt að fjárframlög til hátíðarhaldanna verði hækkuð,“ segir í afgreiðslu ráðsins.
Vegna samkomutakmarkana þurfti að leita nýrra leiða við framkvæmdina í ár. Hátíðardagskrá fór fram í skrúðgarðinum. Fánahyllir var Óskar Ívarsson, starfsmaður Umhverfismiðstöðvarinnar, ræðumaður dagsins var Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, setningarræðu flutti Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar, og fjallkona var María Tinna Hauksdóttir, nýstúdent. Sú nýja leið var farin að bjóða upp á skemmtidagskrá fyrir fjölskyldur á fjórum stöðum í Reykjanesbæ til að dreifa mannfjölda og mæta samkomutakmörkunum.
Menningar- og atvinnuráð Reykjanesbæjar mælir með að gert verði ráð fyrir hærra fjárframlagi til 17. júní hátíðarhalda við næstu fjárhagsáætlunargerð. Ráðið færir þakkir öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarhaldanna í ár.