Mikið um þjófnað á Suðurnesjum

Óvenju mörg þjófnaðarmál hafa komið á borð Lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni. Í gær var tilkynnt um innbrot í bílskúr þar sem munum að verðmæti tæplega 200 þúsund króna var stolið. Um var að ræða fartölvur, batteríisvél, topplyklasett og hjólatjakk. Þá var tilkynnt um þjófnað á handtösku úr bifreið. Í töskunni voru m.a. seðlaveski og greiðslukort. Sá sem þarna var að verki hirti einnig JBL hátalara af mælaborði bílsins.

Þá voru tveir piltar staðnir að hnupli í Bónusverslun. Haft var samband við foreldra þeirra og barnavernd.

Loks var aðili staðinn að verki þar sem hann var að gera sig líklegan til að stela tveimur vodkaflöskum. Hann hafði áður verið staðinn að verki í vínbúðinni þegar hann stal tveimur eins líters vodkaflöskum því það athæfi náðist á upptöku í öryggismyndavél.