Mikið tjón í eldsvoðanum í Njarðvík í nótt
Slökkvistarfi vegna eldsvoða sem kviknaði í bifreiðaverkstæði að Bolafæti 5 í Njarðvík lauk um klukkan hálf fimm í nótt. Slökkviliði Brunavarna Suðurnesja barst tilkynning um eldinn klukkan 1:37 í nótt og var allt tiltækt slökkvilið sent á vettvang, auk liðsauka frá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli.
Mikið tjón varð í eldsvoðanum, en í húsinu voru meðal annars sjö bifreiðar sem eru gjörónýtar. Lögreglumenn gengu í nærliggjandi hús til að vara íbúa við, en mikinn reyk lagði yfir Njarðvík í nótt.
Talið er að kviknað hafi í út frá loftdæli sem starfsmaður á bifreiðaverkstæðinu vann við og var í gangi.
Myndir: Lögreglan vinnur nú að rannsókn á upptökum brunans í bifreiðaverkstæði að Bolafæti 5 í Njarðvík í nótt. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.