Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 30. september 1999 kl. 23:15

MIKIÐ SKEMMDUR EFTIR BRUNA

Það var á fjórða tímanum á þriðjudag sem skipsstjórinn á Hafbjörgu ÁR 15 varð var við eld í vélarúmi en þá var báturinn, sem er 19 tonna eikarbátur frá Þorlákshöfn, staddur um 4 sjómílur undan Hafnarbergi á Reykjanesi. Skipsstjórinn náði að senda út neyðarkall en nokkrir bátar voru í grennd, og skipverjar á einum þeirra, Baldri GK 97 sáu mikinn reyk frá bátnum og héldu þegar að honum. Að sögn Björgvins Færseth skipsstjóra á Baldri voru þeir komnir að Hafbjörgu hálftíma síðar en þá var skipsstjórinn kominn í björgunarbát. Stuttu síðar var hann kominn í annan smábát sem kom að á sama tíma og Baldur. Björgvin skipstjóri á Baldri segir að það hafi skíðlogað í Hafbjörgu þegar að var komið. Þeir voru beðnir um að aðhafast ekkert en stuttu síðar tóku Baldursmenn þá ákvörðun að reyna að slökkva eldinn sem þeim og tókst að mestu. Jafnframt komu þeir taug í bátinn og drógu hann til Sandgerðis. Varðskip kom á svipuðum tíma og fylgdist með björgunaraðgerðum og sömuleiðis flugu björgunarþyrlur Varnarliðsins yfir vettvangi en þær flugmenn þeirra sáu reykjarbólstra á æfingaflugi úti fyrir Reykjanesi. Skipsstjórinn á Hafbjörgu vildi ekki ræða við fréttamenn í Sandgerði. Eldsupptök voru ókunn þegar blaðið fór í prentun.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024