Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Mikið magn mengunarefna og áhrifin talsvert neikvæð
    Útlitsteikning af fyrirhugaðri verksmiðju Thorsil í Helguvík.
  • Mikið magn mengunarefna og áhrifin talsvert neikvæð
Þriðjudagur 7. apríl 2015 kl. 14:07

Mikið magn mengunarefna og áhrifin talsvert neikvæð

– „Mat Skipulagsstofnunar er mikilvægt skref fyrir okkur,“ segja stjórnendur Thorsil

Skipulagsstofnun hefur birt álit sitt á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðrar kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík. Helstu niðurstöður eru þær að Skipulagsstofnun telur að Thorsil hafi sýnt fram á að styrkur brennisteinsdíoxíðs utan þynningarsvæðis verði neðan viðmiðunarmarka hvort heldur að tekið er tillit til klukkustundar - eða sólarhringsgilda eða ársmeðaltals. Þó má búast við að sólarhringsgildi geti farið yfir viðmiðunarmörk á takmörkuðum svæðum innan þynningarsvæðis.

Skipulagsstofnun telur að þó svo að Thorsil hafi sýnt fram á að styrkur annarra mengunarefna en brennisteinsdíoxíðs muni einnig verða innan viðmiðunarmarka utan þess þynningarsvæðis sem hefur verið afmarkað fyrir álver Norðuráls þá muni loftgæði á svæðinu umhverfis Helguvík rýrna talsvert vegna efna úr samanlögðum útblæstri frá fyrirhugaðri starfsemi Thorsil, Norðuráls og United Silicon á svæðinu. Þar sem um er að ræða mikið magn mengunarefna sem mun berast út í andrúmsloftið nærri íbúðarbyggð muni áhrifin verða talsvert neikvæð. Áhrifin eru þó að mestu staðbundin og afturkræf að því undanskildu að reikna má með uppsöfnun þungmálmanæst iðjuverunum.

Þynningarsvæði var á sínum tíma afmarkað vegna starfsemi Norðuráls. Svæðið er allstórt og tekur m.a. yfir lóð Thorsil og nánasta umhverfi hennar. Útreikningar á dreifingu mengunar sýna að þynningarsvæðið muni einnig gegna hlutverki vegna starfsemi Thorsil þar sem búast má við því að sólarhringsgildi brennisteinsdíoxíðs nái viðmiðunarmörkum reglugerðar á nokkrum stöðum innan þess.

Mat á umhverfisáhrifum tekur til byggingar og reksturs kísilmálmverksmiðju sem framleiði allt að 110.000 tonn af kísimálmi á ári, en Thorsil áformar að í fyrsta áfanga verksmiðjunnar verði framleidd um 54.000 tonn á ári. Álit Skipulagsstofnunar er mikilvægur áfangi í framgangi verkefnisins. Stefnt er að því að framkvæmdir við byggingu verksmiðjunnar hefjist á þriðja ársfjórðungi þessa árs og að framleiðsla hefjist á þriðja ársfjórðungi 2017.  Gert er ráð fyrir um 350 - 400 ársstörfum á byggingartíma verksmiðjunnar. Undir fullum afköstum mun verksmiðjan skapa um 130 ný störf, auk afleiddra starfa, s.s. við flutninga, viðhald, verkfræðiþjónustu og fleira, segir í tilkynningu frá Thorsil.

Skipulagsstofnun leggur til eftirfarandi skilyrði í áliti sínu sem gefið er út 1. apríl sl. Þar segir:

1. Verði breytingar á mannvirkjum innan lóðar Thorsil þarf fyrirtækið að sýna fram á að þær hafi ekki marktæk áhrif á styrk mengunarefna utan þynningarsvæðis. Ef ástæða er til að ætla að slíkar breytingar kunni að auka mengun utan þynningarsvæðis þarf Thorsil að leggja fram nýja útreikninga á dreifingu mengunarefna og bera hana undir Umhverfisstofnun áður en Reykjanesbær breytir deiliskipulag svæðisins eða veitir leyfir fyrir breytingunum.

2. Losun Thorsil á brennisteinsdíoxíði þarf að vera undir 15 kg SO2 á hvert framleitt tonn af kísli, a.m.k. þar til vöktun leiðir í ljós að mögulega verði hægt að rýmka losunarheimildir.

3. Í vöktunaráætlun þarf að gera ráð fyrir mælistöð vegna loftmengunar í þeirri línu sem mesti styrkur mengunarefna teygir sig að þéttbýlinu í Reykjanesbæ samkvæmt líkanreikningum.

4. Í vöktunaráætlun þarf að koma fram að uppsöfnun á helstu þungmálmum í mosum á svæðinu verði mæld með reglubundnum hætti.


„Mat Skipulagsstofnunar er mikilvægt skref fyrir okkur og nú fækkar óðum þeim úrlausnarefnum sem þarf að ljúka áður en verkefnið verður að veruleika,“ segir John Fenger stjórnarformaður Thorsil í tilkynningunni. „Með áliti Skipulagsstofnunar er staðfest að starfsemi Thorsils muni verða innan allra lögbundinna marka er varða umhvefisáhrif.“

Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur einnig fram álit dr. Sigurðar M. Garðarssonar, prófessors við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands sem gerði sérstaka athugun á útreikningum á loftgæðum og dreifingu á SO2. Í niðurstöðu dr. Sigurðar, sem hann afhenti Skipulagsstofnun 12. febrúar, fólst viðurkenning á þeirri aðferðafræði sem verkfræðistofurnar Vatnaskil og Mannvit notuðu í útreikningum sínum á ætluðum umhverfisáhrifum sem hljótast munu af verksmiðju á svæðinu.

Thorsil ehf. var stofnað  í byrjun árs 2010. Fyrirtækið er alfarið í eigu Íslendinga og er því um leið fyrsta íslenska „stóriðjan“. Félagið hefur fengið úthlutað 16 hektara lóð í Helguvík. Í fyrirhugaðri verksmiðju verða árlega framleidd um 54 þúsund tonn af kísilmálmi þegar náð verður fullum afköstum, auk 26 þúsund tonna af kísildufti. Aðstandendur verkefnisins hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á að tryggja afkomu og hagkvæmni verksmiðjunnar áður en hún tæki til starfa og hafa nú þegar verið gerðir samningar við rótgróin og öflug framleiðslufyrirtæki erlendis um kaup á um 85% af framleiðslunni til næstu 8-10 ára eftir að framleiðsla hefst.

Stöðug og vaxandi eftirspurn er eftir kísilmálmi á heimsmarkaði. Spár gera ráð fyrir því að eftirspurn aukist um 5% á ári til ársins 2019 eða sem nemur um 137 þúsund tonnum á ári. Árið 2014 nam heimsframleiðslan kísilmálms 2,4 milljónum tonna. Um 33% af heimsframleiðslu kísilmálms eru notuð í margvíslegan efnaiðnað, um 46% sem íblöndunarefni í ál og um 21% eru notuð við framleiðslu á sólarsellum og raftækjum en í þeim geira er um 30% vöxtur á ári í notkun kísilmálms.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024