Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum í fararbroddi
Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur verið frumkvöðull á sínu sviði hér á landi og stöðvar sem hafa opnað annars staðar hafa tekið MSS til fyrirmyndar. Þetta sagði Björn Bjarnason, menntamálaráðherra m.a. í ræðu sinni á ráðstefnu sem var í Eldborg í Grindavík í dag.Ráðstefnan ber heitið „Símenntun í íslensku atvinnulífi“ og er í byrjun Viku símenntunar á Íslandi.Menntamálaráðherra sagði að ráðuneytið fagnaði mjög starfsemi símenntunarstöðva og legði til 5,9 millj. kr. til starfseminnar árlega auk þess sem fé væri lagt til aðstoðar við tækjakaup ýmis konar. Björn sagði að mikilvægt væri að ná til fólks sem er með minnstu menntunina í atvinnulífinu, en um þriðjungur starfsfólks á Íslandi er einungis með grunnskólapróf. Fólk með framhaldsskólamenntun eða háskólapróf upp á vasann er mun duglegra að nýta sér hvers kyns námskeið. „Það er misskilningur hjá fólki sem er með minnstu menntunina að það sé ekki tækifæri fyrir það“, sagði Björn sem fór víða í sinni umfjöllun frá sjónarhorni hins opinbera og sagði t.d. að fjarkennsla og netið skipti sífellt orðið stærra máli og því hafi hann skipað nefnd til að huga að öllum þáttum hvað það varðaði. Hann nefndi til dæmis nettengingu menntastofnana með háhraðaneti.Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun fjallaði um símenntun frá sjónarhorni fagfólks. Hún sagði mikilvægt fyrir eigendur og stjórnendur fyrirtækja að huga vel að símenntun. Slíkt skilaði sér í betri starfsmönnum og ekki síður, ánægðari.Hún benti á ýmis atriði hvernig standa ætti að þessum menntunarhætti í fyrirtækjum.Margir fleiri fluttu ávörp á ráðstefnunni s.s. Arný Elíasdóttir, fræðslustjóri hjá Eimskip hf., Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja og Berglind Bjarnadóttir, starfsmaður Reykjanesbæjar. Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Flugleiðum stjórnaði síðan pallborðsumræðum.Eins og fyrr segir er þessi vika tileinkuð símenntun og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum dreifir námskrá á miðvikudag og á föstudag, símenntunardaginn býður Reykjanesbær öllum starfsmönnum sínum til kyknningar á tækifærum til símenntunar í nýjum húsakynnum MSS í gamla barnaskólanum við Skólaveg 1 í Keflavík.Skráning á námskeið haustsins verða síðan á sunnudag hjá MSS frá kl. 13-16.