Miðflokkurinn gagnrýnir fjárhagsáætlanagerð - bæjarstjóri spyr hvar eigi að hagræða meira
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ gagnrýnir meirihlutann í Reykjanesbæ og segir í bókun sem hún lagði fram á fundi bæjarstjórnar í vikunni, að meirihlutinn geti ekki sett fram fjárhagsáætlun sem byggð sé á röngum forsendum um hagvöxt og atvinnuleysi. Bæjarstjóri lagði fram bókun á fundi bæjarráðs í morgun þar sem hann leggur fram þrjár spurningar til Margrétar og spyr hvernig hún sjái fyrir sér hvar sé hægt að hagræða eða draga saman í rekstri. Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar segir í aðsendri grein til Víkurfrétta að núverandi meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hafi tekið þá ákvörðun að bæjarsjóður dragi hvergi úr þjónustu við íbúa þrátt fyrir hallarekstur og haldi áfram fjárfestingum af fullum krafti. Margrét hefur sent grein í kjölfar pistils Guðbrandar og hún er einnig birt hér að neðan.
Hér að neðan má sjá bókanir og grein vegna málsins.
Bókun Miðflokksins
„Forsendur fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar eru byggðar á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní, eins og kemur fram á bls. 5 í Forsendur og Markmið Fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar.
Efnahagshorfur frá þeim tíma hafa versnað og birti Hagstofan nýja spá þann 1. október sl. Mikilvægt er að fjárhagsætlun taki mið af nýjustu spám um hagvöxt og atvinnuleysi, það gerir hún ekki. Nauðsynlegt er því að uppfæra fjárhagsáætlunina miðað við réttar forsendur. Auk þess er mikilvægt að horfa til spár Seðlabankans sem kom út 1. nóvember síðast liðinn, en sú spá er dekkri en spá Hagstofunnar. Árið 2021 gerir Hagstofan ráð fyrir 3,9 % hagvexti en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 2,3% hagvexti. Hvað atvinnuleysið varðar þá gerir Hagstofna ráð fyrir að það verði 6,8% á landsvísu en Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að það verði 8,3%. Hér í Reykjanesbæ er atvinnuleysið mun hærra og er það mikið áhyggjuefni. Meirihlutinn í Reykjanesbæ getur ekki sett fram fjárhagsáætlun sem byggð er á röngum forsendum um hagvöxt og atvinnuleysi, það gefur ekki rétta mynd af áætluðum tekjum og gjöldum sveitarfélagsins.“
Margrét Þórarinsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins.
----
Bókun bæjarstjóra Reykjanesbæjar
„Vegna bókunar og tillögu bæjarfulltrúa Miðflokksins þann 1. desember síðast liðinn, um 10% niðurskurð fyrirhugaðra fjárheimilda allra sviða nema velferðarsviðs, vill undirritaður taka fram eftirfarandi:
Eins og fram kom í tölvupósti undirritaðs til bæjarfulltrúa fyrir fundi bæjarráðs með sviðsstjórum og formönnum nefnda og ráða dagana 7. og 14. nóvember sl. var þar verið að kynna tillögur stjórnenda Reykjanesbæjar að skiptingu þeirra fjárhagsramma, sem bæjarráð hafði þegar samþykkt, niður á einstök verkefni og málaflokka. Í flestum tilfellum var það skoðun stjórnenda að rammarnir væru of þröngir og að þörf væri fyrir frekari fjárheimildir en um leið tekið fram að menn gerðu sér grein fyrir að slíkt væri óraunhæft í því ástandi sem nú ríkir. Reyndar samþykkti svo bæjarráð rýmri ramma fyrir velferðarsvið og fræðslusvið í kjölfar þessara funda en önnur svið ekki.
Fyrir fundina kom fram að stjórnendur væru búnir að velta við hverjum steini og treystu sér ekki til að leggja fram áætlanir sem gerðu ráð fyrir lægri útgjöldum. Að þeirra mati væri það ekki hægt nema að skerða þjónustu og það væri ákvörðun sem bæjarstjórn þyrfti að taka. Um leið var þess óskað að bæjarfulltrúar kæmu að málinu og hjálpuðu til við að finna eða leggja til leiðir til hagræðingar þar sem stjórnendur væru komnir á leiðarenda í þeim efnum. Slíkum tillögum þyrftu að fylgja útfærðar tillögur hvar ætti að hagræða og hvernig.
Er skemmst frá að segja að engar slíkar tillögur hafa borist frá bæjarfulltrúum eftir þessa kynningarfundi fyrr en áðurnefnd bókun var lögð fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sl. þriðjudag, 1. desember. Einnig vakti athygli undirritaðs að aðeins bárust fyrirspurnir til frekari glöggvunar frá 2 bæjarfullrúum eftir fundina 7. og 14. nóvember síðast liðinn og var þeim svarað eins fljótt og hægt var. Ekki voru gerðar athugasemdir né frekari spurningar sendar né heldur bárust tillögur til hagræðingar eða skerðingar fjárframlaga eða þjónustu. Af því mátti ráða að bæjarfulltrúar hefðu fengið greinargóðar upplýsingar og hefðu skýra mynd af stöðunni.
Að þessu sögðu óska ég, fyrir hönd stjórnenda, eftir útfærðum tillögum bæjarfulltrúa Miðflokksins um hvar og hvernig hún sér fyrir sér að hægt sé að hagræða eða draga saman í rekstri. Í því skyni væri til dæmis gott að fá svar við eftirfarandi spurningum:
- Í hvaða þáttum starfsemi Reykjanesbæjar sér bæjarfulltrúinn fyrir sér að hægt sé að hagræða?
- Ef launum, þá hvernig? Með launaskerðingu, skertu starfshlufalli eða uppsögnum?
- Ef öðrum kostnaði, þá hvar? Í innkaupum aðfanga, aðkeyptri þjónustu, ólögboðnum verkefnum? Hverjum? Almenningssamgöngum, rekstri íþróttamannvirkja, menningarhúsa, tónlistarskóla, leikskóla? Annari starfsemi?
Guðbrandur Einarsson og Kjartan Már Kjartansson á bæjarstjórnarfundi.
Það sem ég veit er að ég veit ekki
Bæjarfulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fór mikinn í bókun sem hún lagði fram á bæjarstjórnarfundi þriðjudaginn 1. desember. Þar eyddi hún miklu púðri í að upplýsa okkur sem lítið vitum, um að við værum að leggja fram bandvitlausa fjárhagsáætlun sem byggði á úreltri þjóðhagshagspá.
Bæjarfulltrúinn segir jafnframt í bókuninni að meirihlutinn geti ekki lagt fram fjárhagsáætlun byggða á röngum forsendum um hagvöxt og atvinnuleysi.
Fjármálareglur teknar úr gildi
Því er til að svara að bæjarfulltrúanum er greinilega ekki kunnugt um að búið sé að afnema fjármálareglur sveitarfélaga vegna faraldursins og sveitarfélögum því heimilt að leggja fram áætlanir sem sýna neikvæða niðurstöðu rekstrar. Það hafa þau reyndar getað gert svo fremi að svokölluð 3ja ára regla sé virt.
Reykjavík hefur t.d. lagt fram áætlun með 11 milljarða halla. Ef Reykjanesbær myndi leggja fram áætlun í hlutfalli við Reykjavík væri hallinn hjá sveitarfélaginu 1,1 milljarður, en skv. framlagðri áætlun er halli Reykjanesbæjar 1,9 milljarðar.
Það er vegna þess að við erum að taka tillit til þess atvinnuleysis sem er til staðar hér á svæðinu, langt umfram þessa þjóðhagsspá sem bæjarfulltrúi Miðflokksins er að vísa til, hvort sem stuðst er við gamla eða nýja þjóðhagsspá. En eitt er víst, það veit enginn hvað verður. Hagspár, hvorki nýjar né gamlar, breyta nokkru þar um.
Hvað þýðir 10% niðurskurður?
Bæjarfulltrúinn leggur einnig til í þessari bókun að farið verði í 10% niðurskurð í stjórnsýslu bæjarins án þess að útfæra það eitthvað frekar. Reyndar undanskilur hún velferðarsviðið í þessari tillögu sinni.
Skoðum þetta aðeins. 10% niðurskurður á fræðslusviði væri rúmar 800 milljónir. Það er svipuð tala og sviðið fékk til að mæta launabreytingum sem hafa orðið vegna kjarasamninga.
Til að mæta þessu gætum við kannski lokað eins og tveimur leikskólum og kannski tónlistarskólanum líka. Hvorki leikskólar né tónlistarskólar teljast til lögbundinnar starfsemi sveitarfélaga. Þetta væri kannski tækifæri.
Ef við skoðum íþróttasviðið aðeins, þá værum við að tala um u.þ.b. 115 milljónir. Við gætum auðvitað mætt því með því að leggja af hvatagreiðslur til barnanna okkar og hætt með samstarfssamninga við íþróttafélögin sem gerðir voru á síðasta ári. Stuðningur við íþróttastarf telst heldur ekki til lögbundinnar starfsemi sveitarfélaga. Svo gætum við líka skoðað það að hætta við að leggja gervigras fyrir ofan Reykjaneshöllina svo að eitthvað sé nefnt.
En er þetta eitthvað sem bæjarbúar vilja nú þegar stormar geysa og nauðsynlegt er að allir innviðir virki? Held ekki. Ég mun alla vega ekki taka þátt í því.
Báknið
Bæjarfulltrúinn endar þetta svo með tilhæfulausum fullyrðingum um að stjórnsýslan hafi blásið út í tíð núverandi meirihluta. Vissulega hefur starfsmönnum sveitarfélagsins fjölgað en það er að stærstum hluta vegna þess að með mikilli fjölgun íbúa hefur þurft að ráða fleiri starfsmenn í skólana til þess að sveitarfélagið geti sinnt lögbundnum skyldum sínum.
Kannski sér bæjarfulltrúinn ofsjónum yfir hækkun á stjórnsýslusviði sem rekja má til þess að þar er geymdur pottur sem nýttur hefur verið til verkefna sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þessum potti hefur mest megnis verið ráðstafað til að auka þjónustu við fötluð börn í sveitarfélaginu og kaupa úrræði fyrir börn og unglinga sem þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda. Ekki er bæjarfulltrúinn að leggja til að það verði skorið niður?
Við aðstæður sem þessar reynir á og mikilvægt að pólitík gangi ekki út á að kaupa sér prik og slá einhverjar pólitískar keilur til þess að koma sér á framfæri.
Núverandi meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur tekið þá ákvörðun að bæjarsjóður dragi hvergi úr þjónustu við íbúa þrátt fyrir hallarekstur og haldi áfram fjárfestingum af fullum krafti.
Það mun skila okkur sterkara samfélagi til framtíðar.
Guðbrandur Einarsson
bæjarfulltrúi Beinnar leiðar og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
---
Rangfærslur meirihlutans við fjárhagsáætlun
Í bókun minni á bæjarstjórnarfundi þann 1. desember sl. kom fram að forsendur fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar væru byggðar á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní, eins og kemur fram á bls. 5 í „Forsendur og Markmið Fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar“.
Efnahagshorfur frá þeim tíma hafa versnað og birti Hagstofan nýja spá þann 1. október sl. Mikilvægt er að fjárhagsætlun taki mið af nýjustu spám um hagvöxt og atvinnuleysi, það gerir hún ekki. Nauðsynlegt er því að uppfæra fjárhagsáætlunina miðað við réttar forsendur. Auk þess er mikilvægt að horfa til spár Seðlabankans sem kom út 1. nóvember síðast liðinn, en sú spá er dekkri en spá Hagstofunnar. Árið 2021 gerir Hagstofan ráð fyrir 3,9 % hagvexti en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 2,3% hagvexti. Hvað atvinnuleysið varðar þá gerir Hagstofna ráð fyrir að það verði 6,8% á landsvísu en Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að það verði 8,3%. Hér í Reykjanesbæ er atvinnuleysið mun hærra og er það mikið áhyggjuefni. Meirihlutinn í Reykjanesbæ getur ekki sett fram fjárhagsáætlun sem byggð er á röngum forsendum um hagvöxt og atvinnuleysi, það gefur ekki rétta mynd af áætluðum tekjum og gjöldum sveitarfélagsins. Þá talaði ég fyrir mikilvægi þess að fá í þeirri vinnu sem framundan er sviðsmyndagreiningar með tilliti til hagvaxtar og atvinnuleysis. Nauðsynlegt er að hægræða í rekstri bæjarins vegna mikils samdráttar í tekjum og aukinna útgjalda sem einkum eru rakin til veirufaraldursins. Ég lagði því til að hagrætt yrði í stjórnsýsslunni sem hefur blásið út í tíð þessa meirihluta. Gerð er því tillögum um 10% hagræðingu í stjórnsýslu bæjarins að velferðarsviði undanskyldu. Það má öllum vera fullljóst að þegar talað er um hagræðingu í stjórnsýslunni/bákninu þá er ekki átt við lögbundna þjónustu og grunnþjónustu. Bæjarfulltrúi Beinnar leiðar Guðbrandur Einarsson kaus að rangtúlka bókun mína frá bæjarstjórnarfundinum og fór hann með ósannindi í grein sinni á visir.is í gær. Þetta eru óheiðarleg vinnubrögð. Það kom skýrt fram í tillögu minni á bæjarstjórnarfundinum að sparnaðurinn myndi ekki ná til Velferðarsviðs. Öllum má vera ljóst að sparnaðartillögur mínar ná ekki til starfsemi grunnskóla og leiksskóla enda er rekstur skólanna hluti af þjónustu sem sveitarfélagið verður að veita samkvæmt lögum. Það er kaldhæðnislegt að oddviti sem situr í meirihluta í sveitarfélagi sem er ný komið undan Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skuli bera sig saman við Reykjavíkurborg þar sem fjármálin eru öll í molum. Þessi greinarskrif dæma sig sjálf og voru í besta falli gerð til þess að beina athyglinni að þeirri staðreynd að fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er ekki byggð á nýjustu spám um hagvöxt og atvinnuleysi þeirra opinberu aðila sem að framan er greint. Sú staðreynd er mikill álitshnekkur fyrir meirihlutann.
Þegar unnið er með fjármálaáætlun á að styðjast við nýjustu hagspá og helst fleiri en eina þegar aðstæður eru óvenjulegar eins og núna, t.d. spá Seðlabankans um hagvöxt og atvinnuleysi sem er dekkri en spá Hagstofunnar. Þó svo að vikið sé tímabundið frá fjármálareglum um skuldahlutfall er ekki þar með sagt að heimilt sé að víkja frá spám um hagvöxt og atvinnuleysi. Ef svo væri þá væri fjármálaætlunin marklaus.
Hagræðing í stjórnsýslu eru rétt og eðlileg viðbrögð þegar tekjufall bæjarins er mikið og útgjölda aukast á sama tíma. Stjórnsýsla er ekki kennarar á leikskóla né hvatagreiðslur til barna eins og bæjarfulltrúinn Guðbrandur Einarsson kýs að afbaka tillögu mína með útúrsnúningum og ósannindum. Þau dæma sig sjálf, enda viðkvæmt fyrir hann að það sé dregið fram í dagsljósið hvernig meirihlutinn hefur blásið báknið út með tilheyrandi kostnaði fyrir bæjarbúa á saman tíma og þeir fella tillögu mína um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Stjórnsýslan er yfirstjórn bæjarins og legg ég til að þar verði skorið niður um 10% og bæjarstjóra og sviðsstjórum falið að útfæra það.
Margrét Þórarinsdóttir,
bæjarfulltrúi Miðflokksins.