Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðbæ Barcelona skellt í lás
Jóna er hér til hægri ásamt vinkonu sinni
Föstudagur 18. ágúst 2017 kl. 11:16

Miðbæ Barcelona skellt í lás

-Sandgerðingurinn Jóna Júlíusdóttir er búsett í hverfinu en er heil á húfi

Sendiferðabíl var ekið á hóp fólks við Römbluna í Barcelona á Spáni í gær er þrettán manns létu lífið og hundrað særðust. Sandgerðingurinn Jóna Júlíusdóttir er búsett í Barcelona og var hún nýkomin heim úr göngutúr þegar Víkurfréttir náðu af henni tali. Fáir voru á ferli um svæðið en borgin þó farin að vakna og taka við sér á ný eftir hörmungar gærdagsins.

„Ég var sofandi þegar þetta gerðist. Ég ætlaði að fara niður í bæ að vesenast en svaf mjög illa og ákvað að leggja mig frekar. Ég vaknaði fyrst við Skype hringingu frá mömmu sem ég hunsaði (sorrý mamma) en svo kom meðleigjandinn inn og sagði mér hvað hafði gerst við enda götunnar okkar. Við tóku klukkutímar í símanum að láta fólk vita og tékka á vinum hér og svara skilaboðum frá fólki heima áður en maður gat skráð sig örugga á Facebook,“ segir Jóna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gærdagur Jónu fór að mestu leyti í það að skoða spænsku fréttirnar ásamt mikilli bið. „Þar sem við búum á Römblunni var útgöngubann lengst hér á svæðinu. Fólk í öðrum hverfum mátti orðið snúa heim en við máttum ekki fara út í búð. Miðbænum var bara skellt í lás. Svo um miðnætti náði ég loks að fara að lesa fréttir. Það er ekki mjög spennandi að svona gerist nánast í bakgarðinum manns. Svo er ansi vinsælt torg Plaza Reial á móti okkur og við vorum hræddar um aðra sprengingu þar.“
 

Á Facebook síðu Jónu í gær sagðist hún hafa verið þakklát fyrir að hafa átt svefnlitla nótt og verið sofandi þegar atvikið átti sér stað. Vinur Jónu starfar sem læknir rétt fyrir utan Barcelona og var kallaður út á eitt stærsta sjúkrahúsið í Barcelona til þess að vinna eftir atburði gærdagsins. Hann er sérfræðingur í slysa- og bráðalækningum og kom hann heim eftir miðnætti. Allt tiltækt læknalið hafði verið kallað út og voru sumarfrí aukaatriði. Jóna segir lögregluna, sjúkralið og lækna hetjur allra borgarbúa.

 

Þessir atburðir voru frekar súrealískir að sögn Jónu og þá sérstaklega þegar þeim var tjáð að einn árásarmannanna hafði falið sig inni á veitingastað nálægt þeim. Margir vinsælir veitingastaðir og meðal annars stórt veitingatorg eru nálægt þeim og hefði árásin í raun og veru geta átt sér stað hvar sem er í kringum íbúðina þeirra.
 

Jóna þakkar öllum þeim sem hafa hugsað til hennar eftir atburði gærdagsins en hún hafði ekki undan í gær að svara skilaboðum, símhringingum og símtölum á Skype eftir að fréttirnar bárust til Íslands.